Erlent

Trump segir öfga-vinstrið bera á­byrgð á morðinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Kirk átti það sameiginlegt með varaforsetanum J.D. Vance að hafa efast um Trump í upphafi en seinna orðið meðal dyggustu stuðningsmanna forsetans.
Kirk átti það sameiginlegt með varaforsetanum J.D. Vance að hafa efast um Trump í upphafi en seinna orðið meðal dyggustu stuðningsmanna forsetans. Getty/Mark Wilson

Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa staðfest að enginn sé í haldi í tengslum við morðið á Charlie Kirk en upplýsingar þess efnis voru afar misvísandi í gærkvöldi.

Samkvæmt yfirlýsingu yfirvalda í Utah segir að tveir hafi verið handteknir og látnir lausir í kjölfar skotárásarinnar en leitin að morðingjanum standi enn yfir. Talið sé að árásarmaðurinn hafi skotið á Kirk af þaki nálægrar byggingar en frekari upplýsingar verði ekki veittar að svo stöddu.

Donald Trump Bandaríkjaforseti ávarpaði landsmenn í nótt á myndskeiði sem hann birti á samfélagsmiðli sínum, Truth Social. Talaði hann um myrka stund fyrir Bandaríkin og sagði „öfga-vinstrimenn“ bera ábyrgð á morðinu. 

Sagði hann ábyrgðina á höndum þeirra sem viðhefðu orðræðu á borð við það að líkja mönnum eins og Kirk, sem var dyggur stuðningsmaður Trump, við Nasista.

Forsetinn ákvað að flaggað yrði í hálfa stöng fram á sunnudag.

Fólk safnaðist saman í nótt fyrir utan Timpanogos-sjúkrahúsið, þangað sem Kirk var fluttur í kjölfar árásarinnar. Joe Biden og Barack Obama, fyrrverandi Bandaríkjaforsetar, hörmuðu árásina og vottuðu fjölskyldu Kirk samúð sína.

Hróp og köll brutust hins vegar út á þinginu, í kjölfar þagnar í minningu Kirk. Þar vildu þingmenn Repúblikanaflokksins kenna Demókrötum um morðið en Demókratar hrópuðu til baka að ef til vill væri kominn tími til að setja almennilega skotvopnalöggjöf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×