Skoðun

Biðin sem (enn) veikir og tekur

Guðlaugur Eyjólfsson skrifar

Fyrir ári síðan skrifaði ég þessa grein sem á enn við þar sem ekkert hefur breyst annað en að fleiri einstaklingar sem greinst hafa með heilabilun hafa ekki fengið viðeigandi úrræði og fjölgað á biðlistum.

„Árið 2021 opnuðu Alzheimersamtökin Seigluna, sem þá var alveg nýtt úrræði ætlað einstaklingum á fyrstu stigum heilabilunar. Úrræðið var algjör bylting og hefur árangurinn og ánægjan ekki staðið á sér. Áhersla er á að tryggja líkamlega, vitræna og félagslega virkni skjólstæðinga á fjölbreyttan hátt og eftir þörfum einstaklinganna sem sækja þjónustuna hverju sinni.

Það er fjölbreyttur hópur sem greinist með heilabilun, sum eru eldri, en önnur yngri og enn virk á vinnumarkaði. Flest þeirra detta því miður fljótlega út af vinnumarkaði eftir greiningu á heilabilun og mörg hver alltof snemma vegna vanþekkingar vinnuveitenda. Í kjölfarið einangrast mörg þeirra og draga sig í hlé sem hefur slæm áhrif. Rannsóknir sýna okkur að með því að vera líkamlega, félagslega og vitrænt virk minnkum við ekki einungis líkur á heilabilun heldur geta einstaklingar með heilabilun einnig hægt á framgangi sjúkdómsins, minnkað einkenni og aukið lífsgæði sín.

Í dag eru 33 pláss í Seiglunni og eru um 50 einstaklingar um þau pláss á hverjum tíma, sum þeirra mæta alla daga en önnur sjaldnar. Reksturinn er fjármagnaður af Sjúkratryggingum Íslands en rekstrarkostnaður Seiglunnar er um 100 m.kr. á ári sem er ekki há upphæð ef horft til ávinningsins. Aukin lífsgæði þeirra einstaklinga sem sækja þjónustu Seiglunnar og léttir aðstandenda, er ekki metinn til fjár. En ef við viljum skoða fjárhagslegan ávinning slíks úrræðis fyrir samfélagið er hann umtalsverður.

Fyrir hvern mánuð sem við komum í veg fyrir þörf á plássi á hjúkrunarheimili fyrir þá 50 einstaklinga sem sækja þjónustu í Seigluna sparast tæplega 100 m.kr. sem er rekstrarkostnaður Seiglunnar á einu ári. Fjárhagslegi ávinningurinn fyrir samfélagið er því borðleggjandi og augljós.

Í dag eru um 60100 (uppfært 2025) einstaklingar á biðlista eftir plássi í Seiglunni. Á meðan þau bíða missa þau hratt færni og eru jafnvel komin of langt í sínum sjúkdómi til að þiggja pláss í Seiglunni þegar röðin kemur að þeim. Við þurfum fjármagn til þess að opna annað sambærilegt úrræði líkt og Seigluna sem allra fyrst, því ljóst er að þörfin er aðkallandi og biðin, hún veikir og tekur.“

Alzheimersamtökin halda áfram að vinna að hagsmunum einstaklinga með heilabilun og aðstandenda þeirra eins og þau hafa gert síðan 1985. Í ár fagna Alzheimersamtökin 40 ára afmæli og vil ég nota tækifærið og minna á afmælisráðstefnu Alzheimersamtakanna laugardaginn 20. september á Hilton Reykjavík Nordica frá kl. 13.00 - 17.00. Engin skráning og öll velkomin!

Höfundur er framkvæmdastjóri Alzheimersamtakanna.




Skoðun

Sjá meira


×