Körfubolti

Skandall í NBA: Borguðu honum milljarða fyrir að gera ekki neitt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Los Angeles Clippers náði í Kawhi Leonard til að vinna loksins NBA titilinn en hefur verið langt frá því á tíma hans með liðinu.
Los Angeles Clippers náði í Kawhi Leonard til að vinna loksins NBA titilinn en hefur verið langt frá því á tíma hans með liðinu. EPA/ALLISON DINNER

Los Angeles Clippers og eigandi þess Steve Ballmer virðast hafa svindlað á launaþakinu til að tryggja sér áfram þjónustu stórstjörnunnar Kawhi Leonard á sínum tíma.

Leonard skrifaði undir nýjan fjögurra ára samning við Clippers haustið 2021. Hann tryggði sér með því 176,3 milljónir dollara sem var það mesta sem hann gat fengið undir launaþakinu á þeim tíma.

Það lítur hins vegar út fyrir það Ballmer hafi fundið leið til að borga honum enn meira. ESPN segir frá.

Níu mánuðum seinna, eða í apríl 2022, skrifaði Leonard undir samstarfssamning við KL2 Aspire. Hann fékk fyrir það 28 milljónir dollara eða tæpa þrjá og hálfan milljarð íslenskra króna en skyldur Leonard voru engar.

Hann fékk allan þennan pening án nokkurrar vinnu og nú halda menn því fram að Ballmer hafi með þessu svindlað á launaþakinu. Þetta hafi í raun verið aukabónus fyrir það að spila áfram með Clippers. Í samningnum stóð meðal annars að Kawhi myndi aðeins fá borgað ef hann spilaði með Clippers.

Ásakanirnar komu fyrst fram í hlaðvarpsþætti Pablo Torre.

Fyrirtækið sem réði Leonard er nú farið á hausinn en hinn moldríki Ballmer fjárfesti ríkulega í því fyrir nokkrum árum.

NBA segist vita af þessu máli og sé að rannsaka það betur. Clippers hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem félagið neitar sök.

Tími Kawhi Leonard hjá Clippers hefur verið mikil vonbrigði enda hann mikið meiddur. Liðið hefur enn ekki tekist að komast langt í úrslitakeppninni og litla liðið í Los Angeles er því enn að bíða eftir fyrsta meistaratitlinum, þeim sama og nágrannar þeirra í Lakers hafa unnið sautján sinnum.

Leonard hefur spilað 266 leiki með Clippers og er með 24,4 stig, 6,4 fráköst og 4,3 stoðsendingar að meðaltali í þeim.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×