Íslenski boltinn

Frá­bær sigur Þórs sem sækir að efsta sætinu

Sindri Sverrisson skrifar
Sigfús Fannar Gunnarsson með boltann í Breiðholtinu í dag þar sem hann skoraði dýrmætt mark fyrir Þórsara.
Sigfús Fannar Gunnarsson með boltann í Breiðholtinu í dag þar sem hann skoraði dýrmætt mark fyrir Þórsara. vísir/ÓskarÓ

Sigfús Fannar Gunnarsson skoraði sigurmarkið þegar Þór vann afar dýrmætan 1-0 sigur gegn ÍR í Breiðholti í dag. Óhætt er að segja að toppbaráttan í Lengjudeildinni í fótbolta sé núna í algjörum hnút.

Sigfús Fannar skoraði markið eftir rúmlega klukkutíma leik og hefur þar með skorað ellefu mörk í Lengjudeildinni á þessari leiktíð.

Fyrr í dag vann Þróttur 3-2 útisigur gegn toppliði Njarðvíkur en HK gerði 3-3 jafntefli við Grindavík.

Staðan í toppbaráttunni er því þannig að Njarðvík er efst með 37 stig, Þór með 36, Þróttur 35, ÍR 33 og HK 31. Efsta liðið kemst beint upp í Bestu deildina en liðin í 2.-5. sæti fara í umspil um hitt sætið sem í boði er. Keflvíkingar sitja í 6. sæti með 28 stig, eftir 4-0 tap gegn Fylki í dag.

Það má því búast við afar spennandi baráttu í síðustu fjórum umferðunum og sannkallaður stórleikur verður á Akureyri næsta laugardag þegar Þór og Njarðvík mætast í Boganum.

Í neðri hlutanum vann Leiknir óhemju dýrmætan 2-1 útisigur gegn Völsungi og kom sér þannig úr fallsæti. Leiknir er með 16 stig líkt og Selfoss, í 9.-10. sæti, en Fjölnir með 15 og Fylkir 14 í fallsætunum. Völsungur er með 19 stig í 7. sæti.

Kári Steinn Hlífarsson skoraði sigurmark Leiknis á Húsavík í dag á 79. mínútu, eftir að Sergio Garcia hafði jafnað metin fyrir Völsungá 70. mínútu. Dagur Ingi Hammer Gunnarsson hafði skorað fyrsta mark leiksins á fyrstu mínútunni.

Upplýsingar um markaskorara eru af Fótbolti.net.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×