Íslenski boltinn

Aukaspyrnumark Oumars tryggði Njarð­vík stig í toppslagnum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Oumar Diouck skoraði jöfnunarmark Njarðvíkinga í kvöld.
Oumar Diouck skoraði jöfnunarmark Njarðvíkinga í kvöld. Vísir/ÓskarÓ

ÍR og Njarðvík gerðu 2-2 jafntefli í kvöld í uppgjöri tveggja efstu liða Lengjudeildar karla í fótbolta en spilað var í Mjóddinni.

Það stefndi í ÍR-sigur í lokin sem hefði skilað þeim fjögurra stiga forskoti á toppnum en Njarðvíkingar náðu í stigið í blálokin. Úrslitin þýða því að það munar áfram bara einu stigi á liðunum.

Davíð Helgi Aronsson kom Njarðvík yfir á 37. mínútu og Njarðvík var 1-0 yfir í hálfleik. Óðinn Bjarkason jafnaði metin eftir ellefu mínútna leik í seinni hálfleik og Bergvin Fannar Helgason kom ÍR yfir sjö mínútum síðar.

Njarðvíkingar hættu ekki og Oumar Diouck tryggði þeim stig með því að skora beint úr aukaspyrnu á 89. mínútu. Þetta var hans níunda deildarmark í sumar.

Þróttarar komu til baka í 2-1 sigri í Grindavík. Ármann Ingi Finnbogason kom Grindavík í 1-0 í fyrri hálfleik en tvö mörk á fimm mínútum tryggðu Þrótturum sigurinn. Mörkin skoruðu þeir Unnar Steinn Ingvarsson og Viktor Andri Hafþórsson á 73. og 78. mínútu. Þróttur komst upp í fjórða sætið með þessum sigri.

Fylkismenn voru nálægt því að vinna sinn fyrsta leik undir stjórn Arnars Grétarssonar þegar liðið gerði 3-3 jafntefli á móti Fjölni í Árbænum.

Bjarni Þór Hafstein kom Fjölni yfir snemma leiks en Fylkismenn svöruðu með þremur mörkum sem Emil Ásmundsson, Eyþór Aron Wöhler og Ásgeir Eyþórsson skoruðu. Fylkir 3-1 komið yfir og í frábærum málum. Þeim tókst að henda sigrinum frá sér.

Kristófer Dagur Arnarsson minnkaði muninn úr vítaspyrnu og setti spennu í leikinn en það var síðan Rafael Máni Þrastarson skoraði síðan jöfnunarmarkið á lokamínútunni.

HK vann 1-0 sigur á Leikni þar sem sjálfsmark Dusan Brkovic réð úrslitum í leiknum. Leiknismenn klúðruðu vítaspyrnu í upphafi leiks og voru sjálfum sér verstir í Kórnum i kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×