Innlent

Fundu tuttugu kíló af grasi eftir hús­leit í Hafnar­firði

Agnar Már Másson skrifar
Hvað ætli séu margar jónur í tuttugu kílóum af grasi?
Hvað ætli séu margar jónur í tuttugu kílóum af grasi?

Lögreglan segist í síðustu viku hafa lagt hald á tuttugu kílógrömm af marijúana sem voru falin í vörusendingum. Ráðist var í húsleit í Hafnarfirði og nokkrir voru handteknir vegna málsins.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu greinir frá því í tilkynningu að hún hafi handtekið sex manns í síðustu viku í þágu rannsóknar hennar á innflutningi fíkniefna. Þrír þeirra hafi setið í gæsluvarðhaldi um tíma. Framkvæmdar voru sjö húsleitir í umdæminu og var lagt hald á rúmlega 20 kg af marijúana, sem voru falin í vörusendingum.

Fíkniefnin hafi bæði fundist við eftirlit tollgæslunnar og við leit í iðnaðarhúsnæði í Hafnarfirði.

„Rannsókn málsins miðar vel,“ segir í tilkynningunni.

Gunnar Rúnar Sveinbjörnsson, kynningarfulltrúi lögreglunnar sem sendi tilkynninguna, segir við Vísi að málið tengist ekki fíkniefnamálinu á Raufarhöfn sem hefur mikið verið fjallað um að undanförnu og hefur teygt anga sína til höfuðborgarsvæðisins. Hér sé um allt annað mál að ræða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×