Erlent

„Þeir verða að geta varið sig“: Hættir við að hætta vopnasendingum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Trump er hættur við að hætta vopnasendingum til Úkraínu.
Trump er hættur við að hætta vopnasendingum til Úkraínu. Getty/Tasos Katopodis

Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá því í gær að Bandaríkjamenn myndu halda áfram að sjá Úkraínumönnum fyrir vopnum, þrátt fyrir að varnarmálaráðuneytið hefði tilkynnt fyrir helgi að hlé yrði gert á sendingunum.

„Við ætlum að senda þeim meira af vopnum. Við verðum. Þeir verða að geta varið sig. Þeir sæta afar hörðum árásum,“ sagði Trump í gær, þegar hann svaraði spurningum blaðamanna.

Varnarmálaráðuneytið hafði áður sagt að hlé yrði gert á sendingunum þar sem gengið hefði á vopnabirgðir Bandaríkjanna. 

Ráðuneytið sendi frá sér yfirlýsingu skömmu eftir að forsetinn lét ummælin falla í gær og sagði að til stæði að senda Úkraínumönnum meira af vopnum, til þess að þeir gætu varið sig á meðan unnið væri að friði.

Þá var ítrekað að skoðun á vopnasendingum Bandaríkjanna til annara ríkja stæði enn yfir og væri lykilþáttur í stefnu stjórnvalda um að setja varnir landsins efst á forgangslistann.

Úkraínumenn hafa sætt hörðum árásum af hálfu Rússa undanfarnar vikur en óskýr skilaboð Bandaríkjanna um afstöðu þeirra til deilunnar og deiluaðila hafa ekki hjálpað Úkraínu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×