Skoðun

Hægri sósíal­ismi

Jón Ingi Hákonarson skrifar

„Þið eruð nú meiri andsk… kommarnir þið þarna í Viðreisn! Hækkið skatta um 100% á útvalda aðila, þetta er bara eignaupptaka og bara Sovét gerræði!!“

Þetta og margt fleira misjafnt hef ég sem Viðreisnarmaður fengið að heyra frá góðu fólki sem telur sig tilheyra hinu íhaldsama hægri. Mest allt vinir mínir og kunningjar, gott fólk sem mér þykir vænt um.

Ég ákvað því að staldra við og ræða veiðigjöldin við góðan kunningja minn íhaldsmegin í lífinu sem er ekki kátur með leiðréttingu veiðigjaldi. Hann vill ekki einu sinni kalla þetta leiðréttingu heldur eignaupptöku.

Ég spurði hann hvað hann ætti við með eignaupptöku því samkvæmt stjórnarskránni þá væri þjóðin eigandi en ekki útgerðin. Hvernig gæti eigandi auðlindarinnar framið eignaupptöku hjá leigjandanum? Hann svaraði ekki en vildi meina að ég væri með útúrsnúninga og gaslýsingu. Hann sagði að útgerðin væri fyrir löngu búin að greiða fullt gjald fyrir kvótann.

Ég spurði hann þá að því hvort hann væri hlynntur leiguþaki á húsnæðismarkaðnum? Hann fussaði og sveiaði og kallaði leiguþak bölvaðan sósíalisma og gróft brot á eignaréttinum. Þar erum við reyndar sammála.

En nú hefur leiguverð margfaldast á nokkrum árum og leiguverð tekur ekki mið af greiðslugetu leigjandans eða tekjum hans. Auðvitað ekki, húsnæðismarkaðurinn og leigumarkaðurinn lýtur lögmálum framboðs og eftirspurnar. Nú þegar mikil umframeftirspurn hefur ríkt, þá hækkar leiguverðið og eigendur húsnæðis þéna meira á eign sinni.

Af hverju á þá að vera leiguþak á veiðiheimildum? Fiskurinn í sjónum er takmörkuð auðlind. Eigandi auðlindarinnar telur að takmarka þurfi veiðar. Leiguverðið hækkar því í væntanlega. En ólíkt húsnæðismarkaðnum er hér leiguþak. Útgerðin greiðir það verð sem útgerðin telur sig geta greitt, ólíkt leigjendum á húsnæðismarkaði.

Þá spyr ég í einfeldni minni: Hver er sósíalistinn hér? Mitt svar er einfalt, það eru hægri íhaldsmenn. Því það er hægt að kalla sig hvað sem er, það sem skilgreinir mann eru hugmyndir manns og athafnir. Ég vil því kasta fram hugtakinu hægri sósíalisti.

Írónían er nefnilega sú að margir útgerðamenn hafa fjárfest á húsnæðismarkaði og sitja hinum megin borðsins þar og hafa hagnast ansi vel á því að leigja út fasteignir sínar á markaðsverði.

Höfundur er bæjarfulltrúi Viðreisnar í Hafnarfirði.




Skoðun

Sjá meira


×