Íslenski boltinn

Ætla skrefinu lengra: „Menn muna þá til­finningu vel“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Guðmundur Kristjánsson í leik við Víking, en Stjarnan tapaði fyrir Víkingum í undanúrslitum bikarsins í fyrra. Garðbæingar ætla sér ekki að endurtaka það á sama stigi keppninnar í kvöld.
Guðmundur Kristjánsson í leik við Víking, en Stjarnan tapaði fyrir Víkingum í undanúrslitum bikarsins í fyrra. Garðbæingar ætla sér ekki að endurtaka það á sama stigi keppninnar í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

„Það er alltaf aðeins meiri eftirvænting fyrir stórum bikarleikjum. Það er alltaf extra skemmtilegt og meiri tilhlökkun,“ segir Guðmundur Kristjánsson, fyrirliði Stjörnunnar, um leik hans manna við Val í undanúrslitum Mjólkurbikarsins í fótbolta í kvöld.

Leikurinn fer fram á Hlíðarenda klukkan 19:30 í kvöld en Stjörnumenn koma inn í leikinn eftir þungt 4-1 tap fyrir Breiðabliki í Bestu deild karla á föstudagskvöldið var.

„Eftir tapleiki vill maður helst fá leiki sem fyrst og koma því í burtu einhvern veginn. Það var fullt af hlutum sem voru góðir en líka aðrir sem voru aðeins lélegri. Það er fínt í undirbúningnum fyrir þennan leik að sjá hvað við þurfum að bæta. Það hefur gengið vel að sturta honum út og undirbúa þennan leik,“ segir Guðmundur í samtali við íþróttadeild Sýnar.

Valsmenn hafa verið á mikilli siglingu að undanförnu en eini tapleikur liðsins í síðustu fimm leikjum var 3-2 tap fyrir Stjörnumönnum fyrir rúmum tveimur vikum. Guðmundur býst við svipuðum leik.

„Þeir reyna væntanlega að stoppa upp í þau göt sem voru hjá þeim seinast og laga það sem misfórst. Auðvitað á hver leikur sitt líf og þetta verður örugglega af einhverju leyti öðruvísi en liðin eru svipuð þannig að leikurinn í sjálfu sér gæti orðið frekar svipaður,“ segir Guðmundur.

Hvað ræður úrslitum í kvöld?

„Það er einhvern veginn í svona leikjum sem þetta veltur á litlu augnablikunum sem enda þá á að vera stór augnablik. Oft finnst mér úrslitin í svona leikjum ráðast á föstum leikatriðum, einbeitingunni í litlum mómentum þar. Það kæmi mér ekki á óvart ef fast leikatriði réði úrslitum,“ segir Guðmundur sem segir spennustig leikmanna einnig skipta máli.

Stjörnumenn hafi þá ekki gleymt tilfinningunni þegar þeir töpuðu fyrir Víkingum eftir vítaspyrnukeppni í undanúrslitum á síðasta ári.

„Spennustigið er mikilvægt. Við auðvitað töpuðum í undanúrslitum í fyrra og það var svolítið súrt. Menn muna þá tilfinningu vel. Það er alltaf gott að fá örlítið stress og spennu en þú mátt ekki láta það yfirtaka í yfirspennu. Það er kúnst að stilla það en við sem höfum reynsluna reynum að stjórna því og stilla orkustigið eins og við viljum hafa það.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×