Elín Guðný Hlöðversdóttir er einn rekenda staðarins. Hún er dóttir Hlöðvers Sigurðssonar, sem Hlöllabátar eru kenndir við, en fjölskyldan tók við rekstri Litlu kaffistofunnar árið 2021 eftir stutta lokun yfir sumarmánuðina. Hún segir reksturinn hafa verið erfiðan og að ekki hafi bætt úr skák þegar Olís flutti bensínstöð sína af Litlu kaffistofunni og í Norðlingaholt. Þar með lauk 63 ára sögu bensínstöðvarinnar.
Elín segist vonast til þess að nýr eigandi finni öruggan rekstrargrundvöll fyrir áningarstaðinn annálaða. Einhver áhugi sé fyrir fasteigninni en lítið vitað um framtíðina.
„Þetta er sögufrægur staður og væri frábært að geta haldið þarna áfram en það þarf fjársterkan aðila til að koma inn með alls konar nýjungar og poppa staðinn upp,“ segir hún.
Hún segir fjölskylduna munu leita á ný mið og að ekkert sé uppkveðið um hvað taki við. Þá segir Elín að haft hafi verið samband við fjölskylduna og spurst fyrir um að eignast fasteignina en að ekkert sé í hendi.
„Það er ekkert komið á hreint. Við erum með þriggja mánaða uppsagnarfrest, þannig við verðum út júlí að pakka og koma hlutum í verð og finna út úr því hvað við ætlum að gera,“ segir Elín Guðný Hlöðversdóttir.