John Ratcliff, forstöðumaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA, fullyrðir í yfirlýsingu að samkvæmt nýjum og áreiðanlegum gögnum leyniþjónustunnar hafi rannsóknarstöðvar sem gegna lykilhlutverki í auðgunargetu Írana eyðilagst algjörlega og að það muni taka þá fleiri ár að koma þeim aftur í samt lag.
My statement confirming CIA intelligence which contradicts illegally sourced public reporting regarding the destruction of key Iranian nuclear facilities. pic.twitter.com/Ln3b4hfELc
— CIA Director John Ratcliffe (@CIADirector) June 25, 2025
„Matið meinta“
Greint var frá því í fyrradag að skýrslu hefði verið lekið úr leyniþjónustudeild varnarmálaráðuneytisins (DIA). Matið byggði á öðru mati sem aðgerðarstjórn Bandaríkjahers framkvæmdi í beinu framhaldi af árásunum.
Bandarískir miðlar náðu tali við ráðamenn sem lesið höfðu áðurnefnt mat og sögðu þeir að í því hefði komið fram að árásir Bandaríkjahers á kjarnorkumannvirki í Íran hefðu ekki gert teljandi tjón og aðeins tafið framleiðslu Írana á kjarnavopnum um fáeina mánuði.
Þetta mat gekk þvert á fullyrðingar Bandaríkjaforseta sem lét hafa það eftir sér að úranauðgunarstöðvar Írans hefðu verið þurrkaðar út með öllu. Pete Hegseth varnarmálaráðherra tók einnig upp hanskann fyrir forsetann og sagði bandaríska fjölmiðla gera tilraun til að koma höggi á Trump með umfjöllun sinni um „matið meinta.“
Samkvæmt matinu lekna var stór hluti þess auðgaða úrans sem geymt var í téðum mannvirkjum flutt á brott þaðan áður en Bandaríkin gerðu árásir sínar með svokölluðum byrgjabrjótum. Sprengjum sem geta grafið sig djúpt ofan í jörðu og lagt neðanjarðarbyrgi í rúst.
Hafna því að Íranir hafi komið úran undan
Þessu hafnar þó Bandaríkjaforseti og ríkisstjórn hans og upplýsingafulltrúi Hvíta hússins lét hafa eftir sér að bandaríska leyniþjónustan byggi ekki yfir neinum gögnum sem styðja þá tilgátu að Írönum hafi tekist að koma auðguðu úrani undan.
Íranska utanríkisráðuneytið hefur síðan gengist við því að kjarnorkumannvirkin í Fordó, Natanz og Isfahan hefðu orðið fyrir alvarlegu tjóni.