Skoðun

Að vera eða ekki vera – hvað er raun­veru­legur árangur?

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir og Inga Hlín Pálsdóttir skrifa

Við sem störfum með fyrirtækjum eigum eitt sameiginlegt markmið: að þau nái árangri. En hvað er raunverulegur árangur?

Fjárhagslegur árangur er oft það fyrsta sem litið er til – hvað situr eftir í kassanum? En sá árangur næst ekki nema með markvissri rekstrarstjórn, að þekkja lykiltölur og draga úr kostnaði, t.d. vegna rafmagns, eldsneytis, sorps eða matarsóunar. Þetta er grunnurinn – en hann segir ekki allt.

Sífellt fleiri fyrirtæki átta sig á mikilvægi samfélagslegrar ábyrgðar. Mælikvarðar eins og ánægja starfsmanna og íbúa, stuðningur við íþróttastarf, innkaup í heimabyggð og þátttaka í samfélagsverkefnum skipta máli. Þátttaka í samfélaginu styrkir tengsl og hefur bein áhrif á upplifun gesta – og þar með endurtekna heimsókn.

Ferðaþjónustan hefur sýnt leiðtogahlutverk, t.d. í verndun náttúru og talningu villtra dýra, fræðslu um jökla og mikilvægi réttrar umgengni og ferðahegðunar. Gestir taka virkan þátt, öðlast dýpri tengingu og ferðast heim með þekkingu og lærdóm sem getur haft áhrif víðar.

Fyrirtæki bera einnig ábyrgð á því hvaða valmöguleikar eru mest áberandi: Er rafmagnsbíll sjálfgefið val? Er rétturinn með staðbundnu hráefni mest áberandi? Er boðið upp á samfélagsverkefni fyrir gesti?

Við fáum yfir 2 milljónir ferðamanna árlega. Hver og einn er tækifæri til að hafa áhrif – einn einstaklingur í einu, einn dag í einu. Ferðaþjónustan getur verið afl til góðra verka og lykill í sjálfbærri og nærandi byggðaþróun.

Raunverulegur árangur mælist í áhrifum – ekki aðeins á reksturinn, heldur á samfélagið, náttúruna og gestina.

Ásta Kristín Sigurjónsdóttir er framkvæmdastjóri Íslenska ferðaklasans

Inga Hlín Pálsdóttir er framkvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins




Skoðun

Sjá meira


×