Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar, þar sem segir að lögregla hafi einnig sektað ökumenn fyrir akstur án ökuréttinda, of hraðan akstur og vöntun á skráningarmerkjum framan á ökutækjum. Einhverjir hafi verið sektaðir vegna filma í fremri hliðarrúðum ökutækjanna.
Þá hafi eitthvað verið um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.
Frá og með 15. apríl er óheimilt að aka á nagladekkjum og hafa ökumenn því haft rúman mánuð til að skipta. Lögregla sagðist í síðasta mánuði hefja að beita sektum vegna aksturs á nagladekkjum þann 5. maí.
Fram kemur í dagbók lögreglu að í póstnúmeri 105 hafi einstaklingur verið handtekinn í nótt vegna tilraunar til fjárkúgunar. Viðkomandi hafi verið látinn laus að lokinni skýrslutöku.
Í sama hverfi hafi einstaklingur verið handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna líkamsárásar. Sá hafi verið í annarlegu ástandi vegna neyslu fíkniefna og bíði skýrslutöku.
Þá var lögreglu tilkynnt um hóp ungmenna með ógnandi tilburði sem áreitti fólk í Neðra-Breiðholti. Fram kemur að málið hafi verið unnið með aðkomu barnaverndar.