Innlent

Blanda af „Mikka mús og íþróttaálfinum“ ógni lýðheilsu

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknar, hefur áhyggjur af æskunni og stóraukinni notkun á nikótínpúðum.
Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknar, hefur áhyggjur af æskunni og stóraukinni notkun á nikótínpúðum. vísir/Vilhelm

Heilbrigðisráðherra boðar frumvarp um merkingu og markaðssetningu niktótínvara sem miðar að því að draga úr neyslu ungmenna. Þingmaður Framsóknar lýsir yfir þungum áhyggjum af aukinni notkun og segir ástandið óboðlegt.

Halla Hrund Logadóttir, þingmaður Framsóknar, tók málið upp í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í morgun og vísaði í rannsókn norrænu velferðarnefndarinnar um stóraukna neyslu á nikótínpúðum.

„Þrjátíu prósent ungmenna nota púðana og það er hæsta hlutfallið á Norðurlöndunum,“ sagði Halla.

Notkun á niktótínpúðum hefur stóraukist.vísir/Egill

Hún vísaði til fjölgunar sérversalana með rafrettur og niktótínpúða og virtist ræða sérstaklega um markaðssetningu keðjunnar Svens sem rekur tólf verslanir á höfuðborgarsvæðinu og notast við ljóshærða teiknimyndafígúru í sinni markaðssetningu.

„Þetta er einfaldlega ekki í lagi. Þessi skaðlega vara er markaðssett sem einhvers konar Extra tyggjó af fígúru sem er blanda á milli Mikka mús og íþróttaálfsins,“ sagði Halla. „Og það er hæpið að slíkri villandi markaðssetningu sé ætlað að vera lögleg.“

Frumvarp boðað

Halla Hrund kallaði eftir frumvarpi sem tekur á stöðunni. Alma Möller heilbrigðisráðherra sagðist deila áhyggjum Höllu og boðaði á haustþingi frumvarp þar sem lög um tóbak og aðrar nikótínvörur verði sameinuð.

Alma Möller heilbrigðisráðherra segir uppi ýmsar áskornir í lýðheilsumálum.Vísir/Einar

„Þar verður auðvitað hugað að þeim leiðum sem færar eru og meðal annars að merkingu og markaðssetningu,“ sagði Alma.

Íslendingar standi frammi fyrir ýmsum áskorunum í lýðheilsumálum sem tekið verði á.

„Við erum að tala um markaðssetningu á óhollustu. Það er líka óholl fæða, það er ofbeldi, það er skjátími og skjánotkun og lengi mætti telja. Þannig ég hef sett af stað hóp sérfræðinga í lýðheilsu sem eiga að kortleggja þessar nýju áskoranir og jafnframt til hvaða aðgerða er hægt að grípa.“

Halla hefur áður viðrað áhyggjur sínar af auknu framboði nikótínvara og ræddi málið meðal annars í umræðum um störf þingsins á dögunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×