Körfubolti

Voru með 0,2 prósent sigur­líkur þegar þrjár mínútur voru eftir en unnu samt

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aldrei skal afskrifa Indiana Pacers.
Aldrei skal afskrifa Indiana Pacers. getty/Al Bello

Það blés ekki byrlega fyrir Indiana Pacers þegar skammt var til leiksloka gegn New York Knicks í fyrsta leik liðanna í úrslitum Austurdeildar NBA í nótt. En Pacers sneri laglega á tölfræðina og vann leikinn.

Þegar tvær mínútur og 51 sekúnda lifði leiks kom Jalen Brunson Knicks fjórtán stigum yfir, 119-105. Samkvæmt tölfræði ESPN voru sigurlíkur liðsins þá 99,8 prósent.

Þegar 58 sekúndur voru eftir jók Brunson muninn í níu stig, 121-112, og allt benti til þess að Knicks myndi taka forystuna í einvíginu. En Pacers var á öðru máli. 

Aaron Nesmith skoraði ellefu stig og Tyrese Haliburton jafnaði svo með ótrúlegu skoti í þann mund sem leiktíminn rann út, 125-125. Hann hélt reyndar að hann hefði tryggt Indiana sigurinn en eftir skoðun á myndbandi kom í ljós að hann var fyrir innan þriggja stiga línuna.

Í framlengingunni hafði Pacers svo betur og vann ótrúlegan sigur, 135-138, og tók þar með forystuna í einvígi liðanna.

Fyrir leikinn höfðu lið sem voru með níu stiga forskot eða meira á síðustu mínútu í 4. leikhluta eða framlengingu unnið 1.414 leiki af 1.414 samkvæmt Elias Sports Bureau. En Indiana breytti því.

Aldrei er hægt að afskrifa Pacers en í úrslitakeppninni hefur liðið fjórum sinnum komið til baka og unnið eftir að hafa lent sautján stigum undir. Það er það mesta hjá liði í úrslitakeppni síðan 1998.

Þá hefur Indiana þrisvar sinnum komið til baka eftir að hafa verið sjö stigum undir á lokamínútunni.

Indiana hefur einu sinni komist í úrslit NBA, árið 2000, en þá vann liðið einmitt Knicks í úrslitum Austurdeildarinnar, 4-2.

Pacers komst einnig í úrslit Austurdeildarinnar í fyrra en laut þá í lægra haldi fyrir Boston Celtics, 4-0.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×