Körfubolti

Meistararnir á lífi eftir stór­sigur í New York

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Tatum naut sín í Stóra eplinu.
Tatum naut sín í Stóra eplinu. Al Bello/Getty Images

Boston Celtics pakkaði New York Knicks saman í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Austursins í NBA-deildinni í körfubolta. Staðan í einvíginu nú 2-1 eftir að meistararnir sýndu loks hvað í sér býr. Vinna þarf fjóra leiki til að komast í úrslit Austurhlutans.

Knicks gerðu sér lítið fyrir og unnu fyrstu tvo leiki einvígisins í Boston. Í báðum leikjum voru meistararnir með unninn leik í höndunum. Í báðum leikjunum tókst gestunum frá New York á einhvern ótrúlegan hátt að koma til baka og vinna dramatíska sigra.

Það var ekki upp á teningnum þegar Boston mætti í Garðinn, heimavöll Knicks. Það var ljóst frá fyrstu mínútu að gestirnir voru ekki komnar frá Boston til að láta ógna sér með sóp. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 20-36 og var í raun ekki aftur snúið.

Staðan í hálfleik var 46-71 og var munurinn nánast sá sami þegar lokaflautið gall, staðan þá 93-115. Alls hitti Boston úr 20 þriggja stiga skotum í leiknum.

Í liði heimamanna var Jalen Brunson stigahæstur með 27 stig ásamt því að gefa sjö stoðsendingar og taka fjögur fráköst. Þar á eftir kom Karl-Anthony Towns með 21 stig og 15 fráköst.

Hjá Boston var það óvænt Payton Pritchard sem var stigahæstur með 23 stig. Hann tók einnig fjögur fráköst og gaf tvær stoðsendingar. 

Jayston Tatum skoraði 22 stig, tók níu fráköst og gaf sjö stoðsendingar. Jaylen Brown skoraði 19 stig, tók sex fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Þar á eftir kom Derrick White með 17 stig og hinn síungi Al Horford skoraði 15 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×