Inter í úr­slita­leik Meistaradeildarinnar eftir stór­brotið ein­vígi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Davide Frattesi fagnar sigurmarki sínu fyrir Internazionale í kvöld en hann skaut ítalska liðinu í úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
Davide Frattesi fagnar sigurmarki sínu fyrir Internazionale í kvöld en hann skaut ítalska liðinu í úrslitaleik Meistaradeildarinnar. Getty/Daniela Porcelli/

Internazionale frá Ítalíu er komið í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í fótbolta eftir 4-3 sigur á Barcelona í ótrúlegum seinni undanúrslitaleik liðanna í Mílanó í kvöld. Inter menn unnu einvígið 7-6 samanlagt.

Liðin gerðu 3-3 jafntefli í báðum leikjum sem buðu báðir upp á allt sem er hægt að biðja um í fótboltaleik. Úrslitin réðust því í framlengingu í kvöld. Sigurmarkið skoraði varamaðurinn Davide Frattesi en það var þrettánda markið í einvíginu.

Börsungar sýndu mikinn styrk með því að vinna upp tveggja marka forskot á þeir voru ótrúlega nálægt því að tryggja sér sigurinn í lok venjulegs leiktíma. Ástríða og barátta Ítalanna hélt þeim hins vegar á lífi og kom þeim alla leið í úrslitaleikinn.

Yann Sommer, markvörður Inter, fékk kannski á sig þrjú mörk en hann bjargaði nokkrum sinnum frábærlega í leiknum þar af tvisvar frá táningnum Lamine Yamal i framlengingunni.

Þetta verður sjöundi úrslitaleikur Inter í þessari keppni og sá annar á þremur árum en liðið tapaði fyrir Manchester City í úrslitaleiknum 2023. Inter menn mæta annað hvort Paris Saint Germain eða Arsenal í úrslitaleiknum sem verður spilaður á Allianz Arena í München. Hinn undanúrslitaleikurinn er spilaður á morgun.

Þetta stórbrotna einvígi verður væntanlega lengi á milli tannanna á fólki enda tveir frábærir fótboltaleiki með mikilli dramatík og fullt af mörkum.

Inter komst í 2-0 í fyrri leiknum en sá endaði með 3-3 jafntefli eftir endurkomu Börsunga. Nú komust Ítalirnir aftur í 2-0 í fyrri hálfleik en aftur misstu þeir þetta niður og gott betur. Ítalska liðið var miklu betra í fyrri hálfleik en í þeim síðari tóku Spánverjarnir völdin.

Lautaro Martinez skoraði fyrsta markið á 21. mínútu eftir sendingu frá Denzel Dumfries og Martinez fiskaði síðan vítaspyrnu í lok fyrri hálfleiks sem Hakan Calhanoglu skoraði úr af miklu öryggi.

Börsungar jöfnuðu hins vegar metin með tveimur mörkum á sex mínútum snemma í seinni hálfleik en bakvörðurinn Gerard Martin lagði þá upp mörk fyrir þá Eric Garcia og Dani Olmo.

Raphinha kom Barcelona síðan yfir á 88. mínútu. Það héldu flestir að Börsungar væru að landa enn einum endurkomusigrinum á þessari leiktíð.

Inter menn gáfust ekki upp og Francesco Acerbi jafnaði metin á þriðju mínútu í uppbótatíma eftir sendingu frá Denzel Dumfries á nærstöngina. Acerbi fagnaði ógurlega enda vissi hann vel að hann hafði skorið sína menn úr snörunni.

Intermenn björguðu sér á síðustu stundu og það voru síðan þeir sem komust aftur yfir í framlengingunni.

Varamaðurinn Davide Frattesi kom þá Inter aftur yfir eftir níu mínútna leik. Marcus Thuram gerði mjög vel í undirbúningnum en Mehdi Taremi átti stoðsendinguna á Frattesi sem skoraði með laglegu skoti úr teignum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira