Fótbolti

Sonur Ronaldos í fyrsta sinn í lands­liði

Sindri Sverrisson skrifar
Cristiano Ronaldo og elsti sonur hans, sem ber sama nafn, gætu mögulega náð að spila saman áður en ferli pabbans lýkur. Þeir eru báðir leikmenn Al Nassr í Sádi Arabíu.
Cristiano Ronaldo og elsti sonur hans, sem ber sama nafn, gætu mögulega náð að spila saman áður en ferli pabbans lýkur. Þeir eru báðir leikmenn Al Nassr í Sádi Arabíu. Getty/Yasser Bakhsh

Elsti sonur portúgalska knattspyrnugoðsins Cristiano Ronaldo var í dag valinn í U15-landslið Portúgals í fótbolta. Ronaldo vakti athygli á þessu á Instagram og kvaðst stoltur af stráknum sínum.

Sonurinn heitir eftir pabba sínum, Cristiano Ronaldo yngri, og er leikmaður Al-Nassr í Sádi Arabíu rétt eins og pabbinn.

Strákurinn er 14 ára gamall og hefur einnig verið á mála hjá fyrri félögum pabba síns; Manchester United og Juventus.

Fyrstu landsleikir Ronaldo yngri gætu orðið gegn Japan, Grikklandi og Englandi á móti sem fram fer í Króatíu 13.-18. maí.

„Stoltur af þér, sonur sæll,“ skrifaði Ronaldo í sögu á Instagram fyrir þær 653 milljónir fylgjenda sem fylgja honum þar.

Ronaldo, sem fimm sinnum hefur unnið Gullboltann sem besti leikmaður heims, er enn að spila A-landsleiki fyrir Portúgal. Hann vann EM með Portúgölum árið 2016 og er markahæsti landsliðsmaður sögunnar með 136 mörk í 219 A-landsleikjum.

Cristiano Ronaldo yngri er elstur af fimm systkinum og hefur pabbi hans sagst vonast til þess að ná að spila leik með honum áður en ferlinum lýkur. „Það veltur meira á mér en honum,“ sagði Ronaldo sem er fertugur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×