Áður en útboð hefst er beðið eftir því að frumvarp fjármálaráðherra varðandi útboðið verði samþykkt. Breytingartillagan verður tekin fyrir á þingi á næstu dögum og þriðju tilboðsbókinni fyrir fagfjárfesta bætt við.
„Við erum bara í undirbúningsfasanum, þetta er á lokametrunum. Alþingi á auðvitað eftir að samþykkja lögin sem liggja fyrir en það gerist væntanlega á komandi dögum.“
„Kannski ekki fullkomna stundin“
Útboðið muni því fara fram á allra næstu vikum nema eitthvað mjög óvænt komi upp sem hafi mikil áhrif á markaðinn. Nefnir hann sem dæmi ef annað óvænt útspil frá Bandaríkjaforseta yrði lagt fram líkt og tollahækkanir á dögunum.
„Eins og allir hafa fylgst með hafa verið lækkanir víða um heiminn í kjölfarið á ákvörðunum Bandaríkjanna og þess vegna er þetta kannski ekki fullkomna stundin til að huga að þessu. Það er hins vegar mikill áhugi á Íslandi. Við þurfum svolítið að haga seglum eftir vindi hvað það varðar. Við höfum verið að kynna þetta tækifæri fyrir aðilum á markaði og áhuginn er góður. Það er auðvitað mikil óvissa.“
Lokaniðurstaðan háð aðstæðum
Íslenskur almenningur mun hafa forgang í útboðinu og síðan íslenskir fjárfestar. Að því loknu mun það sem eftir er vera kynnt fyrir erlendum fjárfestum.
„Það er í sjálfu sér engin takmörk á því hvað hægt er að bjóða þar. Þetta er bara til að koma til móts við vilja almennings. Vonandi er áhugi hjá almenningi.“
Í fyrra var ákveðið að Barclays, Citi og Kvika yrðu umsjónaraðilar útboðsins og var auglýst eftir enn fleiri söluaðilum í síðustu viku.
„Við erum núna bara að yfirfara þá sem hafa boðið sig fram og ég geri ráð fyrir því að þetta muni allt skýrast á allra næstu dögum. Við erum að reikna með því að bjóða helming bankans til að byrja með, það er ekki alveg sett í stein. Það er okkar markmið. Hver lokaniðurstaðan verður, það er bara háð aðstæðum.“