Pósturinn greindi frá lokuninni í síðasta mánuði þar sem sagði að Pósturinn væri ávallt „að leita leiða til að þróa þjónustuna í takt við breyttar þarfir og kröfur neytenda samhliða hagkvæmum rekstri.“ Var tekið fram að Pósturinn myndi áfram sinna póstþjónustu með Póstboxum við Torgið í bænum, póstbíl og landpóstum.
Íslandspóstur hefur síðustu ár rekið pósthús í tengslum við útibú Landsbankans við Kolbeinsgötu á Vopnafirði.
Á fundi sveitarstjórnar Vopnafjarðarhrepps í lok apríl var lýst yfir miklum vonbrigðum með ákvörðun Póstsins um að hætta með svokallað samstarfspósthús á Vopnafirði.
„Þessi ákvörðun mun hafa veruleg áhrif á þjónustu við íbúa svæðisins og er með öllu óásættanleg. Sveitarstjórn krefst þess að Pósturinn endurskoði ákvörðun sína og tryggi að íbúar fái áfram fullnægjandi og aðgengilega póstþjónustu.

Sveitarstjórn lýsir jafnframt áhyggjum sínum af því að nýtt fyrirkomulag póstþjónustunnar muni leiða til verðhækkana á þeirri þjónustu sem íbúar þurfa að nýta sér, sem skerðir aðgengi að grunnþjónustu og bitnar sérstaklega á þeim sem búa í fámennari byggðum. Það er brýnt að jafnræði sé haft að leiðarljósi í allri þjónustu við íbúa landsins, óháð búsetu.
Sveitarstjórn ítrekar mikilvægi þess að Pósturinn vinni að raunhæfum lausnum sem tryggja áframhaldandi þjónustu við íbúa Vopnafjarðar og leggur til að haldinn verði opinn íbúafundur á Vopnafirði þar sem breytingarnar verða kynntar og íbúum gefst kostur á að koma á framfæri sjónarmiðum sínum. Sveitarstjóra er falið að vera í sambandi við Póstinn,“ segir í bókun sveitarstjórnar í fundar.
Á vef Póstsins segir í tilkynningu um lokunina að Pósthúsið á Húsavík sé nú þjónustupósthús íbúa á Vopnafirði.