Upp­gjörið: KA - FH 3-2 | Fyrsti sigur KA en FH-ingar enn á botninum

Einar Kárason skrifar
5P8A0654
vísir/diego

KA vann dramatískan 3-2 sigur er liðið tók á móti FH í Bestu-deild karla í knattspyrnu í dag.

Sólin skein þegar KA tók á móti FH á Akureyri í dag. Bæði lið voru með stakt stig eftir þrjá leiki og því án sigurs. Það voru heimamenn sem höfðu betur í hörkuleik.

Það voru gulklæddir Akureyringar sem voru nálægt því að skora fyrsta mark leiksins strax á fyrstu mínútu þegar Ívar Örn Árnason sendi langan bolta úr öftustu línu á Bjarna Aðalsteinsson sem var kominn í dauðafæri en Mathias Rosenörn, markvörður FH, sá við honum.

Fyrsta mark leiksins leit hinsvegar dagsins ljós eftir um stundarfjórðung en þar var að verki bakvörðurinn reynslumikli Hrannar Björn Steingrímsson. Hallgrímur Mar, bróðir Hrannars, tók þá á móti boltanum fyrir framan teig gestanna, sendi boltann á bróður sinn sem lagði hann fyrir sig og skaut hnitmiðuðu skoti í hornið fjær. Fyrsta mark Hrannars í deild síðan 2019.

Hafnfirðingar tóku við sér eftir að hafa lent undir og fengu þónokkrar hornspyrnur án þess þó að skapa sér almennileg færi. Jöfnunarmarkið kom þó eftir eina slíka þegar Böðvar Böðvarsson, bakvörður FH, skoraði af stuttu færi eftir undirbúning Tómasar Orra Róbertssonar.

Bæði lið sóttu og fengu ágætis færi en þegar gengið var til búningsherbergja í hálfleik var staðan jöfn, 1-1.

Heimamenn hófu síðari hálfleikinn betur rétt eins og þann fyrri. Annað mark KA kom eftir hornspyrnu Hallgríms Mar en enn liggur vafi á hvort markið sé sjálfsmark Grétars Snæs Gunnarssonar eða hvort Ívar Örn hafi átt síðustu snertinguna. KA mönnum var hins vegar alveg sama enda komnir yfir á ný.

Sagan endurtók sig og gestirnir færðu sig framar á völlinn í leit að jöfnunarmarkinu. Eftir að hafa hamast, blásið og másað, kom það loksins þegar KA menn náðu ekki að eiga við fasta hornspyrnu sem endaði á því að boltinn hafði viðkomu í Rodrigo Gomes Mateo á leið sinni í netið. Eftir alla þessa vinnu hljóta FH-ingar að spyrja sig hvernig í ósköpunum heimamenn voru komnir yfir að nýju einungis sekúndum síðar.

KA tók miðju og barst boltinn á varamanninn Viðar Örn Kjartansson, sem fann Ásgeir Sigurgeirsson úti á hægri kantinum. Ásgeir bar boltann í átt að teignum og sendi fasta fyrirgjöf inn í markteig þar sem Bjarni Aðalsteinsson kom á ferðinni og stýrði boltanum snyrtilega í netið. Akureyringar komnir yfir á ný og rúmar fimm mínútur eftir á klukkunni.

Þrátt fyrir að gera allt sem í valdi þeirra stóð náðu gestirnir ekki inn jöfnunarmarkinu og KA því komnir með sinn fyrsta sigur í sumar en FH situr á botni Bestu deildarinnar.

Atvikið

Sigurmark leiksins kemur einungis sekúndum eftir jöfnunarmark FH. Ekki nóg með að það hafi reynst sigurmarkið þá var það afar snyrtileg afgreiðsla sem réði úrslitum.

Stjörnur og skúrkar

Varnarskipulag FH var ekki til fyrirmyndar eftir jöfnunarmarkið og tekur FH liðið skúrkinn á sig í heild. Einbeitingarleysi og óreiða. Í liði KA voru nokkrir leikmenn sem stóðu sig virkilega vel í dag en bakverðir liðsins, Hrannar Björn og Guðjón Ernir Hrafnkelsson áttu glimrandi fínan leik ásamt Ívar Erni. Framan af átti liðið í vandræðum með að finna fremstu menn en þá voru það aðrir sem tóku ábyrgðina á sig. Hallgrímur Mar átti sömuleiðis fínan leik og leggur upp tvö mörk.

Umgjörð og stemning

Sólin skein framan af og var fín stemning á vellinum. Fínustu veitingar í boði og þeir 550 sem mættu skemmtu sér vonandi vel.

Dómararinn

Arnar Þór Stefánsson og hans teymi stóð sína vakt af stakri prýði.

Hallgrímur: „Verum stórir en ekki litlir“

Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA.Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, var að vonum ánægður með stigin þrjú. „Þetta var hörkuleikur og mikil barátta í loftinu og um annan boltann. Mér fannst við höndla það vel og það er það sem FH gerir vel. Við spilum fínan fótbolta stærstan hluta leiks, fáum fín færi og skorum þrjú mörk.“

FH sótti mikið í stöðunni 2-1 og loks kom jöfnunarmarkið. KA menn voru hins vegar ekkert að hika og settu í fimmta gír. „Það er eðlilegt þegar þeir setja marga upp og sparka hátt og við ekki enn búnir að vinna leik. Þá fara menn að vera passívir. Mörkin þeirra koma úr hornspyrnum og þar eru þeir góðir.“

„Ég hef alltaf sagt við strákana þegar við fáum mörk á okkur, verum stórir en ekki litlir. Bara áfram gakk og við skorum strax eftir þeirra mark. Það er sama og í síðasta leik gegn Val þegar við fáum á okkur mark og sköpum dauðafæri sekúndum seinna. Við þurfum að vinna í því að halda í boltann þegar við erum yfir og ekki bara bíða síðasta korterið í lágvörn og halda.“

Eftir fjórar umferðir telur Hallgrímur að við séum ekki búin að sjá fullmótað KA lið. „Við erum búnir að tala um að við munum vaxa inn í mótið. Við áttum óvenjulegt undirbúningstímabil með marga leikmenn lengi meidda. Menn eru fljótir að búa til fyrirsagnir en staðreyndin er sú að við töpuðum fyrir Víking og Val á útivelli. Það er ekkert panic hjá okkur.“

Heimir: „Getum aldrei byrjað að spila fótbolta fyrr en við erum lentir undir“

Heimir Guðjónsson, þjálfari FH.Vísir/Anton Brink

„Eftir að þeir skora annað markið tókum við öll völd á vellinum,“ sagði Heimir Guðjónsson eftir leik. „Við náum góðum tökum og jöfnum leikinn. Eftir að við jöfnum vorum við eins og villiráfandi sauðir og fengum strax mark í andlitið. Við verðum að vera miklu skynsamari en við vorum í þessum leik.“

„Við erum búnir að spila fjóra leiki í deildinni og getum aldrei byrjað að spila fótbolta fyrr en við erum lentir undir. Við fáum yfirleitt á okkur mark snemma og í fyrri hálfleik. Þega leikurinn er jafn spilum við ekki fótbolta og menn vilja ekki fá boltann og við endum í löngum boltum. Við þurfum að nota næstu viku í að rétta okkur af.“

„Við bara hlupum út úr stöðum,“ sagði þjálfari FH spurður út í sigurmark leiksins. „Helmingurinn af liðinu ætlar að fara að pressa en hinn að verjast. Menn voru ekki samstíga um hvað þeir ætluðu að gera. Þegar það gerist þá getum við lent í þessu.“

„Við sköpum okkur alltaf góð færi í öllum leikjum en við höfum ekki náð að nýta þau nógu vel. Við þurfum að líta í eigin barm og átta okkur á hvar við erum og vinna okkur út úr því.“

„Auðvitað eru bara fjórar umferðir búnar en ef við töpum næsta leik á ég þá að koma í næsta viðtal og segja það eru fimm umferðir búnar og það sé nóg eftir. Við þurfum að vinna í okkar málum og gera betur,“ sagði Heimir að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira