Liverpool er Englandsmeistari í knattspyrnu eftir afar sannfærandi 5-1 sigur gegn Tottenham á Anfield í dag.
Liverpool hafði tólf stiga forskot á toppi deildarinnar fyrir leik dagsins og þar sem Arsenal, sem situr í öðru sæti, getur aðeins nælt sér í tólf stig í viðbót var ljóst að jafntefli myndi duga heimamönnum gegn Tottenham í dag.
Það var því mikið undir fyrir þá rauðklæddu á heimavelli í 34. umferð ensku úrvalsdeildarinnar og liðið lenti í örlitlu brasi snemma leiks þegar Dominic Solanke skallaði fyrirgjöf James Maddison í netið og kom Tottenham yfir strax á 12. mínútu.
Heimamenn voru hins vegar ekki lengi að hrista vandræðin af sér. Luis Diaz jafnaði metin fyrir Liverpool strax á 16. mínútu áður en Alexis Mac Allister kom liðinu yfir með þrumuskoti aðeins átta mínútum síðar.
Cody Gakpo sá svo til þess að Liverpool fór með 3-1 forystu inn í hálfleikinn með marki á 34. mínútu.
🇦🇷 x 🇨🇴 pic.twitter.com/77IOO2uED0
— Liverpool FC (@LFC) April 27, 2025
Heimamenn héldu áfram að hamra járnið meðan það var heitt í seinni hálfleik. Mohamed Salah bætti fjórða marki Liverpool við á 63. mínútu og sex mínútum síðar varð Destiny Udogie fyrir því óláni að setja boltann í eigið net.
Heimamenn létu fimm mörk duga, enda var það miklu meira en nóg. Niðurstaðan varð öruggur 5-1 sigur Liverpool og Englandsmeistaratitillinn tryggður.