„Þetta var hugmynd sem ég fékk fyrir einhverju síðan; að taka allt efnið mitt, enda heitir þetta Friðrik Dór - Allt,“ sagði Friðrik Dór í samtali við Ívar Guðmundsson á Bylgjunni í vikunni.
Friðrik Dór hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi í sextán ár og á að baki tugi laga og hefur auk þess gefið út nokkrar plötur, má þar nefna Allt sem þú átt, Vélrænn og svo smáskífurnar Mæður og Dætur. Á tónleikaröðinni mun hann taka plöturnar í heild sinni.
„Í gegnum árin hef ég unnið í samstarfi pródúsentana mína, Ásgeir og Pálma. Fyrstu plötuna (innsk. blm. Allt sem þú átt) samdi ég sjálfur og vann með Red Lights. Svo hafa komið plötur eins og Mæður þar sem ég samdi allt,“ útskýrir hann. „Það hafa mjög fáir tak á því að búa til lag, það er mikilvægt að byggja teymi í kringum sig sem lyftir manni upp,“ segir Friðrik sem nýverið vann með Bubba og lýsir því samstarfi sem „geðveiku og geggjuðu“.
Uppselt er á mörg kvöld í Bæjarbíói og Friðrik Dór segir unnið að því að bæta við aukatónleikum. Hann hyggst einnig bjóða upp á sérstaka fjölskyldutónleika á laugardeginum. „Þá verður þetta bara klukkutími – við tökum Hundinn og eitthvað. Þetta verður létt og skemmtilegt fyrir alla.“
Í viðtalinu við Ívar segir Friðrik að mikið hafi breyst í tónlistarheiminum á síðustu árum. Hann hefur unnið með alls kyns tónlistarmönnum í gegnum tíðina. Margir ungir og efnilegir tónlistarmenn komi fram á sjónarsviðið með reglulegu millibili og það geti verið áskorun að fylgjast með því sem er í gangi hverju sinni.
„Svo er það þannig í mínu tilfelli að ég á erfitt með að muna nöfnin á börnum vina minna – ég á í fullu fangi með það. En ég reyni að fylgjast með,“ segir hann og hlær.
Tónleikaröðin fer fram í september í Bæjarbíói í Hafnarfirði.