Fréttastofa RÚV hefur þetta eftir Arnari Þór Gíslasyni, eiganda English Pub.
Lögreglan hefur þrjá menn til rannsóknar vegna tveggja meintra hópnauðgana í Vesturbæ í Reykjavík í síðasta mánuði. Enginn þeirra er í gæsluvarðhaldi en einn sætir farbanni. Réttargæslumaður kvennanna sem lögðu fram kærurnar segir að svo virðist sem um þaulskipulögð brot sé að ræða.
Mennirnir eru sagðir hafa haldið til á skemmtistaðinn English Pub í Ausurstræti. RÚV hefur eftir Arnari Þór að lögregla hafi ekki haft samband við hann vegna málsins en hann telji sig þó vita hverjir mennirnir eru. Þeir séu bannaðir á staðnum og aðrir skemmtistaðaeigendur hafi verið varaðir við þeim.
Hópnauðganirnar eru tvær af sex sem hafa komið á borð lögreglu það sem af er ári. Bylgja Hrönn Baldursdóttir, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá kynferðisbrotadeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, sagði þetta aukningu frá fyrri árum í samtali við fréttastofu í síðustu viku.