Uppgjörið: Víkingur - Þór/KA 1-4 | Engin hamingja hjá heimakonum Hinrik Wöhler skrifar 16. apríl 2025 17:15 Sandra María Jessen var ótrúlegt en satt ekki á skotskónum í kvöld. vísir/Diego Þór/KA gerði sér góða ferð suður og sigraði Víking, 4-1, í Víkinni í fyrstu umferð Bestu-deildar kvenna í kvöld. Leikurinn fór rólega af stað og bæði lið voru að reyna að finna taktinn í upphafi tímabilsins. Norðankonur áttu hættulegri færi eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn. Hulda Ósk Jónsdóttir, leikmaður Þór/KA, fékk dauðafæri rétt við markteiginn eftir um fimmtán mínútna leik, en henni brást bogalistin og skaut framhjá af stuttu færi. Gestirnir urðu fyrir áfalli þegar Eva Rut Ásþórsdóttir meidd af velli eftir samstuð á miðjum vellinum eftir tuttugu mínútna leik. Eva Rut var að leika sinn fyrsta deildarleik fyrir Þór/KA en hún kom frá Fylki fyrir tímabilið. Í kjölfarið kom kafli þar sem Norðankonur voru tögl og hagldir í leiknum. Eftir rétt rúman hálftíma leit fyrsta mark leiksins dagsins ljós. Það var hin fimmtán ára gamla Bríet Fjóla Bjarnadóttir sem kom boltanum í netið af stuttu færi eftir að fyrirgjöf Huldu Óskar Jónsdóttur hafnaði í þverslánni og hrökk út í markteiginn. Bríet Fjóla með sitt fyrsta deildarmark á ferlinum og kom gestunum yfir. Skömmu síðar, á 37. mínútu, var það aftur Hulda Ósk Jónsdóttir sem geystist upp hægri kantinn og gaf hnitmiðaða fyrirgjöf á kollinn á Kimberley Dóru Hjálmarsdóttur. Eftirleikurinn var auðveldur og Kimberley skallaði boltann í autt markið. Gestirnir að norðan fóru með tveggja marka forystu inn í hálfleikinn og ljóst var að erfitt verkefni beið Víkings í seinni hálfleik. Noðankonur voru ekki hættar og nú var komið að Kareni Maríu Sigurgeirsdóttur. Hún fékk pláss fyrir utan teiginn á 52. mínútu og lét vaða af löngu færi, af um það bil 25 metrum. Boltinn endaði ofarlega á miðju markinu en Sigurborg Katla Sveinbjörnsdóttir, markvörður Víkings, náði ekki til knattarins. Gestirnir voru þar með komnar þremur mörkum yfir. Heimakonur náðu að klóra í bakkann á 70. mínútu þegar fyrirliði Víkings, Bergdís Sveinsdóttir, skallaði boltann í netið af stuttu færi eftir góðan undirbúning frá Lindu Líf Boama. Þrátt fyrir fína pressu frá Víkingum þá ráku norðankonur smiðshöggið á sigurinn með sínu fjórða marki á 87. mínútu. Margrét Árnadóttir skaut föstu skoti af löngu færi sem endaði í stönginni og var það varamaðurinn, Hildur Anna Birgisdóttir, sem var fyrst á vettvang og setti boltann í tómt markið. Þar með sat, leikurinn endaði 4-1 og Þór/KA byrjaði tímabilið á góðum sigri á útivelli. Atvik leiksins Fyrsta mark Bríetar Fjólu Bjarnadóttur í efstu deild og jafnframt fyrsta mark leiksins var atvik leiksins. Þótt það hafi ekki verið hið glæsilegasta þá gilti það alveg jafnmikið. Þessi fimmtán ára leikmaður setti tóninn fyrir Þór/KA sem rúlluðu yfir andlaust lið Víkings í kjölfarið. Stjörnur og skúrkar Hulda Ósk Jónsdóttir reyndist varnarmönnum Víkings erfið viðureignar, sérstaklega í fyrri hálfleik. Hún átti heiðurinn af tveimur fyrstu mörkum Þór/KA og var stöðug ógn af hægri vængnum. Aftasta lína Víkings átti í alls kyns vandræðum í leiknum og norðankonur áttu afar auðvelt með að opna vörn Víkinga. Sérstaklega reyndist vinstri hlið Víkings brothætt, en tvö af mörkum Þór/KA komu eftir fyrirgjafir frá hægri kantinum. Dómarar Bríet Bragadóttir dæmdi leikinn í kvöld og var fátt hægt að setja út á dómgæsluna. Undir lok leiks gerðu gestirnir tilkall til vítaspyrnu þegar boltinn virtist fara í hönd leikmanns Víkings inn í teig, en Bríet var ekki á sama máli. Það hefði líklegast verið harður dómur og rétt mat hjá dómara leiksins að láta leikinn halda áfram. Stemning og umgjörð Það var blíðskaparveður í Fossvogi þrátt fyrir smá norðangolu og umgjörðin til fyrirmyndar í fyrsta deildarleik tímabilsins. Mætingin hefur þó verið betri á leiki Víkings áður, en skrifum það á páskaferðalög landsmanna. Viðtöl Bríet Fjóla: „Vissum að við myndum vera meira með boltann“ Bríet Fjóla Bjarnadóttir skoraði sitt fyrsta mark og fyrsta mark Þór/KA á tímabilinu.Þór/KA Bríet Fjóla Bjarnadóttir, leikmaður Þór/KA, skoraði sitt fyrsta mark í deildarkeppni á Íslandi. Þrátt fyrir ungan aldur þá hefur hún leikið 16 leiki í efstu deild og náði að opna markareikning sinn strax í fyrsta leik. Hvernig var tilfinningin að skora fyrsta markið? „Hún var mjög góð og gaman að skora í fyrsta leiknum á tímabilinu,“ sagði leikmaðurinn efnilegi skömmu eftir leik. Bríet Fjóla, sem er ekki nema fimmtán ára gömul, var í byrjunarliðinu í dag og segist hafa búist við aðeins meiri mótspyrnu frá Víkingum. „Við vorum skipulagðar og vissum að við myndum vera meira með boltann. Ég hélt að þetta mundi verða aðeins erfiðara en þetta,“ sagði Bríet. Undirbúningstímabilið hefur gengið vel að hennar sögn og fer hún bjartsýn inn í sumarið. „Bara mjög vel. Við erum búnar að æfa mjög vel og getum gert gott í sumar,“ sagði Bríet og bætti við að hún vonast til þess að vera á skotskónum á tímabilinu. Besta deild kvenna Víkingur Reykjavík Þór Akureyri KA Fótbolti Íslenski boltinn
Þór/KA gerði sér góða ferð suður og sigraði Víking, 4-1, í Víkinni í fyrstu umferð Bestu-deildar kvenna í kvöld. Leikurinn fór rólega af stað og bæði lið voru að reyna að finna taktinn í upphafi tímabilsins. Norðankonur áttu hættulegri færi eftir því sem leið á fyrri hálfleikinn. Hulda Ósk Jónsdóttir, leikmaður Þór/KA, fékk dauðafæri rétt við markteiginn eftir um fimmtán mínútna leik, en henni brást bogalistin og skaut framhjá af stuttu færi. Gestirnir urðu fyrir áfalli þegar Eva Rut Ásþórsdóttir meidd af velli eftir samstuð á miðjum vellinum eftir tuttugu mínútna leik. Eva Rut var að leika sinn fyrsta deildarleik fyrir Þór/KA en hún kom frá Fylki fyrir tímabilið. Í kjölfarið kom kafli þar sem Norðankonur voru tögl og hagldir í leiknum. Eftir rétt rúman hálftíma leit fyrsta mark leiksins dagsins ljós. Það var hin fimmtán ára gamla Bríet Fjóla Bjarnadóttir sem kom boltanum í netið af stuttu færi eftir að fyrirgjöf Huldu Óskar Jónsdóttur hafnaði í þverslánni og hrökk út í markteiginn. Bríet Fjóla með sitt fyrsta deildarmark á ferlinum og kom gestunum yfir. Skömmu síðar, á 37. mínútu, var það aftur Hulda Ósk Jónsdóttir sem geystist upp hægri kantinn og gaf hnitmiðaða fyrirgjöf á kollinn á Kimberley Dóru Hjálmarsdóttur. Eftirleikurinn var auðveldur og Kimberley skallaði boltann í autt markið. Gestirnir að norðan fóru með tveggja marka forystu inn í hálfleikinn og ljóst var að erfitt verkefni beið Víkings í seinni hálfleik. Noðankonur voru ekki hættar og nú var komið að Kareni Maríu Sigurgeirsdóttur. Hún fékk pláss fyrir utan teiginn á 52. mínútu og lét vaða af löngu færi, af um það bil 25 metrum. Boltinn endaði ofarlega á miðju markinu en Sigurborg Katla Sveinbjörnsdóttir, markvörður Víkings, náði ekki til knattarins. Gestirnir voru þar með komnar þremur mörkum yfir. Heimakonur náðu að klóra í bakkann á 70. mínútu þegar fyrirliði Víkings, Bergdís Sveinsdóttir, skallaði boltann í netið af stuttu færi eftir góðan undirbúning frá Lindu Líf Boama. Þrátt fyrir fína pressu frá Víkingum þá ráku norðankonur smiðshöggið á sigurinn með sínu fjórða marki á 87. mínútu. Margrét Árnadóttir skaut föstu skoti af löngu færi sem endaði í stönginni og var það varamaðurinn, Hildur Anna Birgisdóttir, sem var fyrst á vettvang og setti boltann í tómt markið. Þar með sat, leikurinn endaði 4-1 og Þór/KA byrjaði tímabilið á góðum sigri á útivelli. Atvik leiksins Fyrsta mark Bríetar Fjólu Bjarnadóttur í efstu deild og jafnframt fyrsta mark leiksins var atvik leiksins. Þótt það hafi ekki verið hið glæsilegasta þá gilti það alveg jafnmikið. Þessi fimmtán ára leikmaður setti tóninn fyrir Þór/KA sem rúlluðu yfir andlaust lið Víkings í kjölfarið. Stjörnur og skúrkar Hulda Ósk Jónsdóttir reyndist varnarmönnum Víkings erfið viðureignar, sérstaklega í fyrri hálfleik. Hún átti heiðurinn af tveimur fyrstu mörkum Þór/KA og var stöðug ógn af hægri vængnum. Aftasta lína Víkings átti í alls kyns vandræðum í leiknum og norðankonur áttu afar auðvelt með að opna vörn Víkinga. Sérstaklega reyndist vinstri hlið Víkings brothætt, en tvö af mörkum Þór/KA komu eftir fyrirgjafir frá hægri kantinum. Dómarar Bríet Bragadóttir dæmdi leikinn í kvöld og var fátt hægt að setja út á dómgæsluna. Undir lok leiks gerðu gestirnir tilkall til vítaspyrnu þegar boltinn virtist fara í hönd leikmanns Víkings inn í teig, en Bríet var ekki á sama máli. Það hefði líklegast verið harður dómur og rétt mat hjá dómara leiksins að láta leikinn halda áfram. Stemning og umgjörð Það var blíðskaparveður í Fossvogi þrátt fyrir smá norðangolu og umgjörðin til fyrirmyndar í fyrsta deildarleik tímabilsins. Mætingin hefur þó verið betri á leiki Víkings áður, en skrifum það á páskaferðalög landsmanna. Viðtöl Bríet Fjóla: „Vissum að við myndum vera meira með boltann“ Bríet Fjóla Bjarnadóttir skoraði sitt fyrsta mark og fyrsta mark Þór/KA á tímabilinu.Þór/KA Bríet Fjóla Bjarnadóttir, leikmaður Þór/KA, skoraði sitt fyrsta mark í deildarkeppni á Íslandi. Þrátt fyrir ungan aldur þá hefur hún leikið 16 leiki í efstu deild og náði að opna markareikning sinn strax í fyrsta leik. Hvernig var tilfinningin að skora fyrsta markið? „Hún var mjög góð og gaman að skora í fyrsta leiknum á tímabilinu,“ sagði leikmaðurinn efnilegi skömmu eftir leik. Bríet Fjóla, sem er ekki nema fimmtán ára gömul, var í byrjunarliðinu í dag og segist hafa búist við aðeins meiri mótspyrnu frá Víkingum. „Við vorum skipulagðar og vissum að við myndum vera meira með boltann. Ég hélt að þetta mundi verða aðeins erfiðara en þetta,“ sagði Bríet. Undirbúningstímabilið hefur gengið vel að hennar sögn og fer hún bjartsýn inn í sumarið. „Bara mjög vel. Við erum búnar að æfa mjög vel og getum gert gott í sumar,“ sagði Bríet og bætti við að hún vonast til þess að vera á skotskónum á tímabilinu.