Markmið þjónustunnar er að auka aðgengi að eftirliti fyrir einstaklinga með sykursýki, með því að bjóða upp á nákvæma augnbotnamyndatöku á Selfossi með CLARUS 500 tækni frá Zeiss, sem er eitt það öflugasta sem völ er á. Myndirnar eru síðan sendar rafrænt til augnlækna hjá Sjónlagi til greiningar. „Augnbotnamyndataka er lykilatriði í að greina hugsanlega fylgikvilla sykursýki, svo sem blæðingar, bjúgmyndun og próteinleka í æðum augans,“ segir í yfirlýsingu frá Sjónlagi. „Sykursýki er efnaskiptasjúkdómur sem getur valdið skemmdum á litlum æðum í augnbotni og haft áhrif á sjón ef ekki er gripið inn í tímanlega.“

Þegar myndir hafa verið skoðaðar af sérfræðingi eru niðurstöður sendar beint til skjólstæðings inn á Heilsuveru, ásamt næstu skrefum. Í sumum tilfellum þarf sjúklingur að mæta í frekari skoðun hjá augnlækni, en í öðrum tilfellum nægir að bóka endurmat að ári liðnu.
Þjónustan er sérstaklega ætluð einstaklingum með sykursýki 2 sem eru í eftirliti og þurfa reglulega augnskoðun. Tímar eru skipulagðir í samráði við heimilislækni og starfsfólk sykursýkismóttökunnar innan HSU.
Þetta er enn eitt mikilvægt skref í þróun fjarlækninga á Íslandi, þar sem Sjónlag hefur nú þegar sett upp sambærilega þjónustu á Akureyri og í Vestmannaeyjum – þó enn víðtækari þar. Með þjónustunni á Selfossi er verið að færa mikilvægt heilbrigðiseftirlit nær fólki í heimabyggð.