Erlent

Myndir af fjöl­skyldunni til sölu í fjóra tíma eftir þyrluslysið

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hjónin Agustin og Merced með þremur ungum börnum sínum við þyrluna fyrir þyrluferðina örlagaríku.
Hjónin Agustin og Merced með þremur ungum börnum sínum við þyrluna fyrir þyrluferðina örlagaríku.

Spænsk fjölskylda sem lést í þyrluslysi í New York í gærkvöldi lét taka myndir af sér við þyrluna áður en þau fóru í loftið. Myndirnar var hægt að kaupa á 25 dali á vefsíðu þyrlufyrirtæksins í fjóra klukkutíma eftir slysið.

Útsýnisþyrla af gerðinni Bell 206L-4 LongRanger IV hrapaði í Hudson-á við bryggju 40 New Jersey-megin eftir um korters útsýnistúr um 15:17 að staðartíma.

Skjáskot úr myndbandi af þyrlunni stéllausri falla á hvolfi til jarðar.Ap

Vitni á vettvangi sögðu aftari þyrlublöðin hafa brotnað af í miðju flugi áður en þyrlan snerist á hvolf og hrapaði í ána. Allir sex um borð létust í slysinu en lík þeirra voru dregin upp úr vatninu í gærkvöldi.

Samkvæmt lögregluyfirvöldum voru um borð í þyrlunni hjónin Agustín Escobar, forstjóri yfir járnbrautargrunnvirkjum hjá Siemens Mobility, og Merce Camprubi Montal sem voru í fríi með þremur börnum sínum, fjögurra, fimm og ellefu ára gömlum, auk 36 ára flugmanns sem ekki er vitað hver var. Fjölskyldan var í heimsókn frá Barcelona.

Nú er búið að birta hrollvekjandi mynd af síðustu andartökum fjölskyldunnar áður en þau stigu um borð í þyrluna. Þyrlufyrirtækið New York Helicopter Tours hefur ekki tjáð sig um birtingu myndanna.

Kranabátur vinnur að því að draga þyrluna úr vatninu.AP

Tengdar fréttir

Sex látnir eftir að þyrla brotlenti í New York

Sex eru látnir eftir að þyrla brotlenti í Hudson-á í New York. Þrír fullorðnir og þrjú börn voru um borð. Eric Adams, borgarstjóri New York-borgar, segir að um hafi verið að ræða spænska ferðamenn. Fimm manna fjölskylda og flugmaður þyrlunnar séu öll látin. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×