Fótbolti

„Maður þarf að skora til að vinna leiki“

Runólfur Trausti Þórhallsson og Ágúst Orri Arnarson skrifa
Karólína Lea ræddi við Stöð 2 og Vísi fyrir leik Íslands og Sviss.
Karólína Lea ræddi við Stöð 2 og Vísi fyrir leik Íslands og Sviss. Vísir/Stöð 2

„Bara vel. Þetta er búið að vera jákvætt eftir Noregsleikinn, mikið af ljósum punktum og við verðum að byggja ofan á þetta,“ sagði landsliðskonan Karólína Lea Vilhjálmsdóttir aðspurð hvernig sér liði í viðtali við Stöð 2 og Vísi.

Karólína Lea var í eldlínunni þegar Ísland og Noregur gerðu markalaust jafntefli í Þjóðadeild kvenna í fótbolta. Næsti leikur liðsins er gegn Sviss. Miðjumaðurinn öflugi var spurð út í hvað hefur mest verið rætt síðan leiknum gegn Noregi lauk.

„Það sem við getum byggt ofan á. Við gerðum mikið af góðum hlutum. Vorum þéttar varnarlega og vorum að skapa mikið sóknarlega. Fengum flott færi og það eina sem vantaði var þetta mark. Þurfum að ná því inn og þá er ég bjartsýn.“

Það kom blaðamanni á óvart hversu heimilislegt allt er á hóteli landsliðsins. Þjálfarinn á inniskónum og fleira í þeim dúr.

„Við fórum aðeins út í gær, fengum þá smá frítíma annars erum við bara hér að jafna okkur á milli leikja. Fjölskyldan kemur stundum á hótelið en það er þá bara eitthvað stutt á milli æfinga.“

Síðast þegar Ísland mætti Sviss lauk leiknum með markalausu jafntefli.

„Sviss er hörkulið með mikið af frábærum leikmönnum þannig að við þurfum að eiga góðan leik til að eiga möguleika á sigri,“ sagði Karólína Lea og bætti jafnframt við að ef liðið myndi byggja á Noregsleiknum þá ættu möguleikarnir að vera góðir.

„Maður þarf að skora til að vinna leiki og við ætlum að gera það á morgun, þriðjudag.“

Leikur Íslands og Sviss hefst klukkan 16.45 á morgun, þriðjudag. Verður leikurinn í beinni textalýsingu hér á Vísi.

Klippa: Karólína Lea: „Maður þarf að skora til að vinna leiki“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×