Markaðir víðast hvar í heiminum hafa tekið hressilega dýfu síðan Donald Trump Bandaríkjaforseti greindi frá áformum sínum um stóraukna tolla á innflutning til Bandaríkjanna.
Kauphöllin hér heima hefur ekki farið varhluta af þróuninni og úrvalsvísitalan hefur verið nánast í frjálsu falli síðan á miðvikudag, þegar tollarnir tóku gildi. Hún hefur ekki verið lægri síðan 17. september í fyrra.
Í dag hefur gengi Alvotech lækkað um 12,28, Amaroq um 12,1 prósent og Oculis um 10,89 prósent. Þessi félög eiga það öll sameiginlegt að vera skráð á markað erlendis samhliða skráningu hér. Alvotech og Oculis eru skráð í Bandaríkjunum og Amaroq í Bretlandi og í Kanada. Gengi fjórða tvískráða félagsins, JBT Marel, hefur lækkað um 7,09 prósent.
Athygli vekur að vörur bæði Alvotech og Oculis, lyf, eru undanskildar tollum Trumps.
Gengi þriggja félaga hefur staðið í stað, enda hafa engin viðskipti með bréf í þeim farið fram það sem af er degi. Það eru Play, Síldarvinnslan og Ölgerðin. Gengi allra annarra félaga hefur lækkað.