Viðskipti innlent

Metfjöldi far­þega í mars

Atli Ísleifsson skrifar
Bogi Nils segir að bókunarstaðan fyrir sumarið á markaðnum til Íslands sé betri nú en á sama tíma í fyrra frá öllum mörkuðum – N-Ameríku, Evrópu og frá fjarmörkuðum.
Bogi Nils segir að bókunarstaðan fyrir sumarið á markaðnum til Íslands sé betri nú en á sama tíma í fyrra frá öllum mörkuðum – N-Ameríku, Evrópu og frá fjarmörkuðum. Vísir/Egill

Icelandair flutti metfjölda farþega í mars eða 312 þúsund, fimm prósent fleiri en á sama tíma í fyrra en flugframboð jókst að sama skapi um fimm prósent.

Þetta kemur fram í tilkynningu Icelandair til Kauphallar. Þar segir að í mánuðinum hafi 38 prósent farþega verið á leið til Íslands, 18 prósent frá Íslandi, 37 prósent tengifarþegar og 7 prósent ferðast innanlands. Sætanýting hafi verið 83,5 prósent og stundvísi var 84 prósent.

„Tekjumyndun í mánuðinum var í takti við væntingar stjórnenda. Tekjur á hvern seldan sætiskílómetra (yield) námu 8,1 bandarísku senti og lækkuðu samanborið við mars á síðasta ári, sem aðallega má rekja til þess að páskar voru í mars í fyrra.

Seldir blokktímar í leiguflugi voru 50% fleiri en í mars í fyrra og fraktflutningar jukust um 3%. Kolefnislosun á hvern tonnkílómetra dróst saman um 3% vegna fleiri ferða á hagkvæmari B737 MAX og A321 LR vélum,“ segir í tilkynningunni.

Bókunarstaðan mun betri en á sama tíma í fyrra

Haft er eftir Boga Nils Bogasyni, forstjóra Icelandair, að það sé ánægjulegt að sjá farþegum fjölga um fimm prósent milli ára, þrátt fyrir að páskarnir hafi verið í mars í fyrra.

„Þetta undirstrikar að varan og þjónustan sem við bjóðum er samkeppnishæf og eftirsóknarverð allt árið um kring, þar með talið yfir vetrarmánuðina þegar eftirspurn er almennt minni. Á sama tíma náðum við að viðhalda góðri stundvísi og áframhaldandi hárri sætanýtingu.

Bókunarstaðan fyrir sumarið á markaðnum til Íslands er betri nú en á sama tíma í fyrra frá öllum mörkuðum – N-Ameríku, Evrópu og frá fjarmörkuðum. Eftirspurn á markaðnum frá Íslandi er einnig mun sterkari en á sama tíma í fyrra. Eftirspurn á markaðnum um Ísland er góð, en vegna áherslu okkar á aðra markaði, eru bókanir á þeim markaði færri en á sama tíma í fyrra. Bókunarstaðan er því almennt sterkari fyrir sumarið en á sama tíma í fyrra en við höfum orðið vör við að hægst hefur á bókunum til lengri tíma sem er skiljanlegt í ljósi óvissu í alþjóðlegu efnahagsumhverfi.

Nýlega efldum við samstarf okkar við JetBlue sem gerir meðlimum vildarklúbbs þeirra kleift að greiða fyrir flug hjá Icelandair með vildarpunktum. Við gerum ráð fyrir því að þetta stuðli að aukinni eftirspurn eftir flugi til Íslands hjá viðskiptavinum JetBlue. Þá er ánægjulegt að sjá áframhaldandi sterka eftirspurn eftir Saga Premium vörunni okkar auk þess sem vildarklúbburinn okkar hefur stækkað mikið síðustu misserin en meðlimafjöldi nálgast óðfluga tvær milljónir,“ er haft eftir Boga Nils.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×