Innlent

Töflurnar tuttugu þúsund falsaðar og inni­héldu annað hættu­legt efni

Jón Þór Stefánsson skrifar
Nítazene er flokkur lyfja sem teljast til nýmyndaðra ópíóíða, og hafa verkun samkvæmt því.
Nítazene er flokkur lyfja sem teljast til nýmyndaðra ópíóíða, og hafa verkun samkvæmt því.

Tuttugu þúsund töflur sem tollverðir haldlögðu á Keflavíkurflugvelli voru ekki af gerðinni Oxycontin eins og fyrst var talið. Heldur er um að ræða töflu sem innihalda svokallað Nítazene, sem er sagt hættulegt heilsu manna.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Suðurnesjum. Þar segir að töflurnar hafi verið látnar líta út eins og Oxycontin 80 milligrama töflur, og umbúðir þeirra merktar sem slíkar og álumbúðir merktar Mundipharma A/S.

Rannsókn hafi hins vegar leitt í ljós að þarna væru töflur sem innihéltu Nítazene, sem mun vera framleitt á ólöglegum markaði. Nítazene er sagt vera flokkur lyfja sem teljist til nýmyndaðra ópíóíða.

„Efnið er hættulegt heilsu manna og hafa verið gefnar út aðvaranir vegna efnisins erlendis,“ segir í tilkynningu lögreglunnar.

Þar er jafnframt bent á að neysla samsvarandi efnis hafi valdið að minnsta kosti einu andláti í Hollandi.

„Af þessu tilefni telur Lögreglustjórinn á Suðurnesjum og Rannsóknastofa í lyfja- og eiturefnafræði, Háskóla Íslands, tilefni til að senda út þessa fréttatilkynningu til að vara almenning við kaupum þessara og annarra efna án aðkomu lækna og lögmætra lyfsala. Þá virðist efnið vera nýtt á fíkniefnamarkaði erlendis.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×