Íslenski boltinn

Varnar­garða­hópurinn stendur vörð um fót­boltann í Grinda­vík

Sindri Sverrisson skrifar
Grindvíkingar spila í treyjum merktum #TeamVarnargardar í sumar.
Grindvíkingar spila í treyjum merktum #TeamVarnargardar í sumar. UMFG/Baldur Kristjánsson

Verktakarnir sem unnið hafa við gerð varnargarða við Grindavík og Svartsengi, og stærstu birgjar þeirra, hafa nú tekið höndum saman og verða aðalstyrktaraðili knattspyrnudeildar Grindavíkur.

Í kjölfar eldgosanna á Reykjanesskaga, sem talið er að haldi áfram á næstu dögum, missti knattspyrnudeild Grindavíkur sína helstu styrktaraðila enda urðu þeir flestir fyrir miklum áhrifum af völdum þessara náttúruhamfara.

Nú hafa verktakarnir sem reistu varnargarða við Grindavík og Svartsengi, og birgjar þeirra, hins vegar brugðist við og sameinast um að styðja við knattspyrnulið bæjarins.

Eins og greint hefur verið frá á Vísi þá stefna Grindvíkingar áfram að því að tefla fram knattspyrnuliðum í sumar og samkvæmt plani mun karlalið félagsins spila sína heimaleiki í Lengjudeildinni í Grindavík, á Stakkavíkurvelli. Kvennaliðið hefur sameinast Njarðvík og spilar heimaleiki sína í Reykjanesbæ.

Haukur Guðberg Einars­son, for­maður knatt­spyrnu­deildar Grinda­víkur, sagði við Vísi í síðasta mánuði að mönnum væri full alvara með því að stefna á að spila í bænum:

„Já allan daginn. Það fer náttúru­lega eftir móðir náttúru. Við erum enn í at­burði, vitum ekki hvað gerist næst en við höfum sloppið vel hingað til. Völlurinn er heill, stúkan heil. Völlurinn er iða grænn þessa stundina. Hann bíður eftir því að við komumst heim.“

Verktakarnir og birgjarnir sem ákveðið hafa að styðja við fótboltalið Grindavíkur eru:

  • Ístak hf.
  • Íslenskir Aðalverktakar hf
  • Sveinsverk ehf
  • Ingileifur Jónsson ehf
  • Fossvogur
  • Hefilverk ehf
  • Skeljungur
  • Klettur
  • Kraftvélar
  • Armar Ehf
  • Berg Verktakar ehf

Á nýjum treyjum Grindvíkinga sem sjá má hér að ofan er svo nýtt lógó sem vísar í form varnargarðanna og bókstafinn „G“ fyrir Grindavík. Hönnunarstofan Kolofon og Baldur Kristjánsson ljósmyndari lögðu verkefninu lið með hönnun merkis og myndatöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×