Aftonbladet greinir frá þessu en Måns hefur áður rætt á opinskáan hátt um sambandserfiðleika þeirra við blaðið. Greint var frá því í maí á síðasta ári að Ciara hefði hætt að fylgja eiginmanni sínum á samfélagsmiðlinum Instagram en blaðið segir að málin hafi litið betur út eftir sumarið.
Þau bjuggu lengst af í Bretlandi en fluttu saman til Svíþjóðar síðastlðið sumar. Þá sögðust þau ætla sér að flytja á vínekru í Skáni í eigu sænsku poppstjörnunnar, sem kom, sá og sigraði Eurovision árið 2015. Aftonbladet segir hinsvegar að Ciara hafi aldrei verið skráð til búsetu á vínekrunni.
Þau eiga saman tvö börn, sex og tveggja ára gömul. Þau kynntust eins og áður segir árið 2015, eignuðust sitt fyrsta barn árið 2018 og giftu sig loks í Króatíu árið 2019 svo athygli vakti.
Måns hefur ekki átt sjö dagana sæla en hann þurfti að sætta sig við annað sætið í Melodifestivalen síðustu helgi. Hann átti afar erfitt með ósigurinn og lýsti yfir miklum vonbrigðum með dómnefndir í keppninni. Måns steig svo á bensínið dagana á eftir og sendi gagnrýnendum sínum pillu á samfélagsmiðlum og sagði þá þröngsýna.