Handbolti

„Mjög undar­legt að þessi höll standist kröfur“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Klefinn sem landsliðinu býðst í keppnishöllinni er ekki upp á marga fiska.
Klefinn sem landsliðinu býðst í keppnishöllinni er ekki upp á marga fiska. Samsett/Handbolti.is/Vísir

Aðstæður karlalandsliðsins í handbolta sem mætir Grikklandi eru ekki upp á marga fiska. Vængbrotið lið mætir Grikkjum í Chalkida í undankeppni EM í dag.

„Þetta er þokkalegt hótel en veðrið er gott og það er sól. menn geta setið úti og fengið sér kaffibolla. Það er mjög kærkomið fyrir okkur sem búa á Íslandi. Ég hef ekki yfir miklu að kvarta, ennþá,“ segir landsliðsþjálfarinn Snorri Steinn Guðjónsson aðspurður hvernig fari um landsliðsmenn Íslands þar ytra.

Sérkennileg aðstaða blasti hins vegar við strákunum okkar í keppnishöllinni í Chalkida í Grikklandi þar sem leikurinn fer fram. Myndir úr klefa landsliðsins má sjá hér á vefsíðu Handbolti.is.

Laugardalshöll er á þónokkrum undanþágum hjá alþjóðasamböndum vegna aðstöðunnar hér heima en þá er spurningin hversu margar undanþágurnar eru í Chalkida.

„Ef [Laugardals-] höllin er á miklum undanþágum þá er mjög undarlegt að þessi höll bara standist einhverjar kröfur. Maður er svo sem ýmsu vanur í þessum bolta, bæði sem leikmaður og þjálfari. Þetta eru bara allskonar hallir sem maður spilar í. Þegar allt kemur til alls er völlurinn yfirleitt svipaður og dúkurinn eins og í Höllinni. Þannig að við látum það ekki trufla okkur,“ segir Snorri Steinn.

Aðspurður hvort leikmenn láti sig hafa það að fara í sturtu í höllinni segir hann:

„Ég er reyndar ekki mikið að mónitora það hvar þeir fara í sturtu, leikmennirnir. En það kæmi óvart ef þeir færu í sturtu í höllinni bæði og á æfingum og líka jafnvel eftir leikinn á morgun. Þá fer betur um menn hérna í hótel sturtunni,“ segir Snorri léttur.

Viðtal við Snorra úr Sportpakka gærkvöldsins má sjá í spilaranum að ofan.

Leikur Íslands og Grikklands hefst klukkan 17:00 og verður lýst beint á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×