Erlent

Dalai Lama segir arf­taka sinn munu fæðast í „hinum frjálsa heimi“

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Dalai Lama segir Tíbeta hafa kallað eftir endurholdgun sinni.
Dalai Lama segir Tíbeta hafa kallað eftir endurholdgun sinni. epa/Michael Buholzer

Arftaki Dalai Lama mun fæðast utan Kína, í „hinum frjálsa heimi“, segir í nýrri bók andlegs leiðtoga Tíbeta. Í bókinni fjallar hann um samskipti sín við leiðtoga Kína síðustu áratugi.

Tenzin Gyatso, fjórtándi Dalai Lama, var útnefndur arftaki forvera síns aðeins tveggja ára gamall. Hann flúði Tíbet árið 1959 og hefur búið í útlegð á Indlandi alla tíð síðan. Hann er 89 ára.

Hann hafði áður sagt að mögulega yrði hann síðasti Dalai Lama en í bókinni Rödd fyrir raddlausu, sem kemur út í dag, segir hann arftaka sinn munu fæðast í „hinum frjálsa heimi“ og verða áfram andlegur leiðtogi Tíbeta, tákn samkenndar og baráttu Tíbeta fyrir frelsi.

Stjórnvöld í Kína hafa fyrir sitt leyti sagst munu velja næsta Dalai Lama og segja núverandi andlegan leiðtoga Tíbeta „aðskilnaðarsinna“. Talsmaður utanríkisráðuneytis Kína sagið í gær að Dalai Lama væri „pólitískur útlagi sem stundaði and-kínverska aðskilnaðarstefnu undir trúarlegum möttli“.

Dalai Lama segir í bók sinni að heimaland hans sé enn í heljargreipum Kína og að baráttan fyrir frelsi mun halda áfram eftir dauða sinn. Hann hyggst greina nánar frá arftaka sínum í sumar, þegar hann verður níræður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×