Breski dægurmálamiðillinn The Sun greindi fyrst frá fréttunum í fyrradag og kom þar fram að „ónefnd stjarna“ hefði lent í slysi í Pinewood Studios í Iver Heath og hlotið „alvarlega“ áverka á mjaðmargrind og fótlegg.
Fréttaflutningur The Sun virðist hafa verið ögn skeikull því Warner Bros. gáfu frá sér yfirlýsingu þar sem sagði að tökur á myndinni hæfust aftur í næstu viku.
„Leikarinn John Goodman slasaðist á mjöðm,“ sagði talsmaður Warner Bros. í tilkynningunni sem Variety greinir frá. „Hann hlaut tafarlausa aðhlynningu sem leiddi til stuttrar frestunar á tökum svo hægt væri að gefa honum tíma til að jafna sig. Tökur hefjast í næstu viku þegar John hefur jafnað sig að fullu.“
Verið er að skjóta nýjustu kvikmynd mexíkóska leikstjórans Alejandro González Iñárritu í stúdíóinu og fer Tom Cruise með aðalhlutverk í henni. Iñárritu er einnig framleiðandi myndarinnar og skrifar handritið að henni. Síðasta mynd hans var hin sjálfsævisögulega Bardo, falsa crónica de unas cuantas verdades (2022) en þar áður gerði hann The Revenant (2015) sem hlaut þrenn Óskarsverðlaun og mikið lof.
Auk Goodman og Cruise fara Sandra Huller, Riz Ahmed, Jesse Plemons og Sophie Wilde með hlutverk í myndinni sem lítið er vitað um. Vinnutitill myndarinnar er Judy og ku hún fjalla um megalómanískan mann sem ætlar sér að bjarga heiminum.