Húsnæði nýju lögreglustöðvarinnar er við Ránarbraut 1 á neðri hæðinni þar sem Arion banki og ÁTVR voru áður með starfsemi sína. Fjölmenni mætti í opið hús í nýju lögreglustöðinni í vikunni og voru allir hæstánægðir með nýju húsakynnin.
„Það eru sex lögreglumenn á þessu svæði eins og staðan er í dag og við auðvitað vonumst til að getað eflt okkar starfsemi núna enn frekar þegar við erum komin með aðstöðu á svæðinu. Það er ekki sólarhringsvakt hérna en það eru bakvaktir á nóttunni en vakt yfir daginn og fram á kvöld,” segir Grímur Hergeirsson, lögreglustjóri á Suðurlandi.

Sveitarstjóri Mýrdalshrepps fagnar að sjálfsögðu nýju lögreglustöðinni.
„Þessi glæsilega aðstaða hérna er auðvitað algjör bylting fyrir starfsfólk Lögreglunnar á Suðurlandi og ég hef bara væntingar til þess að þetta verði til þess að fjölga lögreglumönnum hér á svæðinu og auka öryggi okkar og allra ferðamanna, sem að koma hérna um,” segir Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps.

Og það eru sex lögreglumenn í Vík, eru þetta bestu lögreglumenn landsins eða hvað?
„Já, ég held að það megi örugglega kalla þá bestu lögreglumenn landsins því þeir þurfa oft að standa vaktina hérna undir gríðarlega erfiðum kringumstæðum, glíma við náttúruöflin, óreynda oft erlenda ökumenn, sem eru að koma mikið til okkar og ég er afskaplega þakklátur fyrir þeirra góðu störf,” segir Einar Freyr.
Reynir Ragnarsson var lögreglumaður í Vík í 20 ára. Hann er alsæll með nýju lögreglustöðina.
„Mér líst bara vel á hana, mjög vel. Það er annað heldur en þegar maður byrjaði hérna í lögreglunni en ég var nú fyrsti fastráðni lögreglumaðurinn hérna í sýslunni og þá var engin aðstaða neins staðar,” segir Reynir.

