Körfubolti

Þarf að taka sig á í skólanum

Stefán Árni Pálsson skrifar
Tryggvi Snær Hlinason er algjör lykilmaður í íslenska landsliðinu.
Tryggvi Snær Hlinason er algjör lykilmaður í íslenska landsliðinu. vísir/Hulda Margrét

Landsliðsmaðurinn Tryggvi Snær Hlinason gat ekki fagnað sætinu á Eurobasket lengi. Hann var kominn langt á eftir í viðskiptafræðinni og mættur í hópverkefni daginn eftir sigurinn á Tyrkjum.

Tryggvi lék lykilhlutverk í íslenska landsliðinu í sigrinum gegn Tyrkjum í Laugardalshöllinni á sunnudagskvöldið. Hann lék frábærlega, spilaði yfir 38 mínútur í leiknum, skoraði 13 stig, tók ellefu fráköst, gaf fjórar stoðsendingar og blokkaði 4 skot.

„Ég er eiginlega ekki alveg búinn að jafna mig. Ég ferðaðist heim til Bilbao í raun strax eftir leikinn. Svo varð ég bara að fara strax að læra þar sem ég er svolítið eftir á núna,“ segir Tryggvi sem stundar fjarnám í viðskiptafræði ásamt því að vera atvinnumaður í körfubolta í ACB-deildinni á Spáni.

„Ég á eftir að horfa á leikinn aftur því mig langar í raun að upplifa þetta allt aftur. En ég er aðeins búinn að fara illa með minn hóp í hópaverkefninu í skólanum og þarf núna að fara laga mín mál.“

Martin Hermannsson var með íslenska liðinu í síðasta landsliðsglugga og það hjálpar Tryggva sem er iðulega undir körfunni.

„Hann er ótrúlega góður leikmaður og það verður aldrei tekið af honum. Hann gerir mikið fyrir okkur og tekur til sín mikla athygli. Það hjálpar mér í kjölfarið.“

Hér að neðan má sjá viðtalið við Tryggva sem var í Sportpakkanum á Stöð 2 í gærkvöldi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×