Erlent

Trans her­menn leitaðir uppi og látnir fjúka innan 60 daga

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Varnarmálaráðherrann Pete Hegseth hafði áður sagt að hermönnum með kynama yrði sýnd viðring og reisn.
Varnarmálaráðherrann Pete Hegseth hafði áður sagt að hermönnum með kynama yrði sýnd viðring og reisn. Getty/Omar Havana

Samkvæmt minnisblaði sem dagsett er í gær hafa stjórnvöld vestanhafs gefið varnarmálaráðuneytinu 30 daga til að útbúa lista yfir trans einstaklinga innan hersins og aðra 30 daga til að láta þá fara.

Minnisblaðinu var skilað inn til dómstóla í gær, í tengslum við mál sem National Center for Lesbian Rights og GLAD Law höfðuðu vegna forsetatilskipunar Donald Trump þess efnis að það samræmdist ekki kröfum sem gerðar eru til hermanna að vera trans.

Samtökin segja tilskipunina brjóta gegn jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar.

Fyrr í mánuðinum gaf varnarmálaráðuneytið það út að trans fólki yrði ekki lengur heimilað að ganga í herinn og að yfirvöld myndu ekki lengur greiða fyrir kynleiðréttingaraðgerðum hermanna.

Í minnisblaðinu nýja segir meðal annars að það sé stefna stjórnvalda í Bandaríkjunum að gera strangar kröfur til hermanna, meðal annars er varða heiðarleika, auðmýkt, samheldni og viðbragð.

Einstaklingar sem glímdu við eða sýndu einkenni kynama og sættu þar með andlegum og læknisfræðilegum takmörkunum uppfylltu ekki umræddar kröfur.

Hermenn hafa hingað til ekki verið skikkaðir til þess að greina frá því hvort þeir séu trans og þannig er ekki ljóst hversu stór hópurinn er. Aðgerðasinnar segja að hann gæti talið allt að 15 þúsund manns en embættismenn segja um að ræða nokkur þúsund.

Guardian greindi frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×