Efnislega eru samningarnir keimlíkir þeim sem Samband íslenskra sveitarfélaga hafnaði á föstudag en mestu munaði um tvær meginbreytingar, annars vegar tillaga um að setja á fót forsendunefnd sem falið væri að skera úr um deilumál á samningstímabili og hins vegar frestun gildistíma uppsagnarákvæðis um einn mánuð. Í fyrsta lagi verður hægt að segja samningnum upp 1. mars 2027.
Forsendunefndin breytti öllu
„Við komum með nýja tillögu inn í þetta forsenduákvæði um forsendunefnd sem hjálpar okkur að greiða úr deilum ef þær koma upp og minnkar líkur verulega á því að samningum verði sagt upp. Við vorum mjög sátt við það og kennarar líka og það varð til þess að við náðum saman,“ sagði Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Verkalýðsforkólfar og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins hafa í dag lýst undrun sinni yfir þeim hækkunum sem kennarar náðu í gegn í ljósi þess að í mars í fyrra sömdu Starfsgreinasambandið, Efling og Samiðn undir stöðugleika- og velferðarsamninga sem einkenndust af vægum launahækkunum en ríkulegri aðkomu ríkisins til að ná tökum á verðbólgu og vöxtum. Inga kveðst ekki hafa áhyggjur af því að kennarasamningurinn muni valda óróa.
„Það sem við erum að gera þarna er að setja kennara á réttan stað og leiðrétta laun þeirra miðað við aðra starfsmenn okkar,“ segir Inga Rún.
Heljarinnar vinna fram undan
Formaður kennarasambandsins lítur á áfangann sem upphafspunkt.
„Nú er bara heljarinnar vinna fram undan og nú förum við í það að undirbúa kynningar fyrir okkar fólk og kynnum samninginn og munum greiða atkvæði um hann núna, í fyrsta skipti KÍ allir í einu, sem er áfangi sem ég er stoltur af, ég er ótrúlega stoltur af mínu fólki. Að við erum núna í fyrsta skipti með allar skólagerðir, kennarar, ráðgjafar, stjórnendur í sama samningnum.“
20-25% launahækkanir til kennara
Kjarasamningur Kennarasambandsins við ríki og sveitarfélög tryggir um það bil tólf þúsund manns launahækkanir upp á 20-25% á fjögurra ára tímabili. Kjarasamningurinn felur í sér innborgun á vegferð sem nefnist virðismat starfa sem nemur 8,0 prósenta hækkun frá sveitarfélögum og 3,5% hjá ríki og tekur gildi 1.febrúar 2025 verði samningurinn samþykktur.
Launahækkanir á tímabilinu eru mismunandi eftir hverju aðildarfélagi Kennarasambandi fyrir sig en almennt eru þær á bilinu 20-25% yfir samningstímann. Fréttastofu er á þessari stundu ekki kunnugt um heildarkostnaðarmat samningsins. Atkvæðagreiðsla um samninginn hefst á næstu dögum og lýkur á þriðjudag.