Innlent

Fundað á ný í kennaradeilu

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Inga Rún Ólafsdóttir fer fyrir samninganefnd sveitarfélaganna.
Inga Rún Ólafsdóttir fer fyrir samninganefnd sveitarfélaganna. Vísir/Vilhelm

Samninganefndir í kjaradeilu kennara hafa verið boðaðar til fundar í húsakynnum ríkissáttasemjara klukkan 15 í dag. Ekki hefur verið fundað í deilunni síðan sveitarfélögin höfnuðu innanhússtillögu sáttasemjara á föstudag og ríkið tók ekki afstöðu til hennar.

Óhætt er að segja að sjóði á kennurum sem samþykktu innanhússtillöguna á fimmtudaginn og urðu fyrir miklum vonbrigðum þegar sveitarfélögin höfnuðu henni tuttugu klukkustundum síðar. Kennarar dúndruðu út færslum á Facebook í gær og lýstu yfir atvinnuleit en um gjörning var að ræða.

Þá mættu kennarar í Garðabæ og mótmæltu við bæjarskrifstofur á meðan fundur bæjarráðs fór fram í morgun. Á morgun hafa kennarar í Hafnarfirði efnt til gjörnings þar sem útför kennarastarfsins fer fram.

Verkföll standa yfir í fimm framhaldsskólum, einum tónlistarskóla og einum leikskóla.


Tengdar fréttir

Kennarar mótmæla við bæjarráðsfund

Kennarar í Garðabæ fjölmenntu í Sveinatungu á Garðatorgi í morgun til að minna á kjarabaráttu sína. Fundur bæjarráðs hófst klukkan átta og liggja kennarar á gluggunum með fána á lofti meðan fundurinn fer fram. Boðað hefur verið til fundar í deilunni hjá sáttasemjara klukkan 15 í dag.

„Ekki sitja í störukeppni á meðan molnar undan unga fólkinu“

Hljóðið er fremur þungt í skólameisturum Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri en ótímabundið verkfall er skollið á í skólunum tveimur, auk þriggja annarra. Þeir vilja að deiluaðilar sitji við og fundi að lausn deilunnar, það sé ekki í boði að vera í störukeppni á meðan nemendur verði af menntun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×