Arnór skoraði fimm stig á þeim tæpu fimmtán mínútum sem hann spilaði í leiknum, í naumu 94-92 tapi Grindavíkur, en það var orkan í varnarleik hans sem fékk þá Pavel Ermolinskij og Helga Má Magnússon til að hrósa þessum hávaxna, unga leikmanni.
„Þetta er ástæðan fyrir því að hann er inni á vellinum. Það er varnarleikurinn hans. Það er fínt að hann sé að skora þessar körfur en ástæðan fyrir því að Jói [Jóhann Árni Ólafsson, þjálfari] gat ekki tekið hann út af, varð að setja hann aftur inn á, er þetta,“ sagði Pavel á meðan að klippur á skjánum undirstrikuðu kraftinn og fórnfýsina í Arnóri. Brot úr þættinum má sjá hér að neðan.
„Þetta eru góð skilaboð til ungra leikmanna. Það eru betri körfuboltaleikmenn inni á vellinum, sem eru að fara að skora fleiri körfur, en mínúturnar ykkar eru í varnarframmistöðunni sem Arnór sýndi í þessum leik. Hann gerði helling fyrir Grindavík,“ sagði Pavel.
Arnór fór með Grindavík í úrslitaeinvígið gegn Val á síðustu leiktíð og stimplaði sig rækilega inn í Bónus-deildina.
„Í fyrra var fyrsta tímabilið hans. Núna er hann kominn með smáreynslu, búinn að fá smakk af lokaúrslitum, svo hann er kominn með fullt í bankann. Nú er bara að bæta við en ekki missa þetta [sem við vorum að sjá]. Svo bætirðu hægt og rólega ofan á þetta,“ sagði Helgi en brot úr þætti gærkvöldsins má sjá hér að ofan.