Erlent

Segir Úkraínu enn á leið í NATO

Samúel Karl Ólason skrifar
Keir Starmer og Vólódímír Selenskí.
Keir Starmer og Vólódímír Selenskí. EPA

Úkraína mun að endingu ganga í Atlantshafsbandalagið. Þetta sagði Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, við Vólódímír Selenskí, forseta Úkraínu, þegar þeir töluðu saman í síma í morgun en þá sagði Starmer einnig að engar viðræður um Úkraínu gætu átt sér stað án Úkraínu.

Ráðamenn nokkurra Evrópuríkja og Mark Rutte, framkvæmdastjóri NATO, hafa notað svipuð orð um mögulega aðild Úkraínu að NATO en flestum þykir ljóst að ríkið verður ekki aðili að bandalaginu á næstu árum.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, lýsti því yfir í gærkvöldi að hann gæti ekki ímyndað sér að Rússar, sem eru ekki í NATO, myndu nokkurn tímann leyfa Úkraínu að ganga inn í bandalagið.

Pete Hegseth, varnarmálaráðherra Trumps, hafði þar áður slegið á svipaða strengi og slegið aðild að NATO af borðinu. Hann dró það til baka í kjölfar mikillar gagnrýni um að hann hefði kastað frá sér mikilvægum viðræðulið í mögulegum friðarviðræðum við Rússa.

Sky News vitnar í yfirlýsingu frá Downingstræti um að Starmer hafi ítrekað að Bretar stæðu enn við bak Úkraínumanna og gerðu það eins lengi og til þyrfti. Starmer sagði einnig að Úkraínumenn þyrftu að koma að viðræðum um innrás Rússa og að Úkraínumenn hafi einnig þörf á sterkum öryggistryggingum, hernaðaraðstoð og þeir gætu reitt sig á Breta.

Þá er haft eftir Starmer að hann hafi ítrekað að innganga Úkraínu í NATO væri óumflýjanleg, eins og samþykkt hafi verið á fundi í Bandaríkjunum í fyrra. Hvenær þessi innganga á að eiga sér stað er þó óljóst.

Í yfirlýsingunni frá Downingstræti segir einnig að Starmer og Selenskí verði í áframhaldandi samskiptum.

Selenskí segir að hann og Starmer hafi einnig talað um samtal hans og Trumps á dögunum og aðrar viðræður úkraínska forsetans við bandaríska erindreka.

Hann segir alla þurfa að vinna saman til að ná góðum árangri og að öryggi stakra þjóða byggi á þeirra sameiginlega öryggi. 


Tengdar fréttir

Sprengju­dróni flaug á stein­hvelfingu Tsjern­obyl-versins

Skemmdir urðu á steinhvelfingu utan um Tsjernobyl-kjarnorkuverið í Úkraínu og eldur kviknaði eftir að dróni flaug á hana í nótt. Forseti Úkraínu fullyrðir að dróninn hafi verið rússneskur og að hann hafi verið öflugan sprengiodd.

Líklegra að komið verði á vopnahléi en friðarsamningum

Albert Jónsson sérfræðingur í alþjóðastjórnmálum og fyrrverandi sendiherra Íslands í Rússlandi og Bandaríkjunum telur líklegra að vopnahlé taki gildi á milli Úkraínu og Rússlands en að gerðir verði friðarsamningar þeirra á milli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×