Innlent

Eigin­kona Ragnars Þórs að­stoðar Ást­hildi Lóu

Atli Ísleifsson og Magnús Jochum Pálsson skrifa
Guðbjörg Ingunn Magnúsdóttir starfaði með Ásthildi Lóu í Árbæjarskóla.
Guðbjörg Ingunn Magnúsdóttir starfaði með Ásthildi Lóu í Árbæjarskóla. Stjr

Guðbjörg Ingunn Magnúsdóttir hefur verið ráðin aðstoðarmaður Ásthildar Lóu Þórsdóttur, mennta- og barnamálaráðherra.

Þetta kemur fram á vef stjórnarráðsins. Þar segir að Guðbjörg hafi útskrifast árið 2004 sem grunnskólakennari frá Kennaraháskóla Íslands og er með MA-gráðu í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf frá Háskóla Íslands.

„Guðbjörg hefur fjölbreytta reynslu á málefnasviði mennta- og barnamálaráðuneytisins. Hún starfaði sem kennari við Sæmundarskóla, Lágafellsskóla og Árbæjarskóla auk þess að hafa starfað sem deildarstjóri á leikskólanum Hlaðhamri.

Síðustu ár hefur hún starfað í Suðurmiðstöð Reykjavíkur sem íþrótta- og samskiptatengill og sem verkefnastjóri Velkominn í hverfið, sem hefur það að markmiði að styðja sérstaklega við börn og fjölskyldur af erlendum uppruna.

Guðbjörg býr yfir mikilli reynslu af farsældarlögunum og hefur bæði gegnt hlutverki tengiliðar og málstjóra frá upphafi innleiðingar þeirra. Þá hefur hún líka verið teymis- og verkefnastjóri í SkaHm sem er skammtímadvöl fyrir börn með fjölþættan vanda.

Guðbjörg var ráðin í stöðu sérfræðings í mennta- og barnamálaráðuneytinu í byrjun árs en gegnir stöðu aðstoðarmanns frá og með deginum í dag samkvæmt ákvörðun ráðherra,“ segir í tilkynningunni.

Þess ber að geta að Guðbjörg og Ásthildur Lóa störfuðu saman í Árbæjarskóla um nokkurt skeið. Guðbjörg er jafnframt eiginkona Ragnars Þórs Ingólfssonar, flokksfélaga Ásthildar og formanns fjárlaganefndar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×