Erlent

Ellefu létust í skot­á­rásinni

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Mikill viðbúnaður lögreglu var á svæðinu.
Mikill viðbúnaður lögreglu var á svæðinu. EPA/Kicki Nilsson

Ellefu er látnir eftir skæða skotárás í skóla í Svíþjóð. Lögregla segir að tölu látinna geta hækkað.

Fertugur maður hóf skotárás í Campus Risbergska skólanum í Örebro í Svíþjóð um hádegi í dag. Lögregla hefur staðfest að ellefu eru látnir eftir árásina, þar á meðal árásarmaðurinn.

Margir eru taldir særðir eftir árásina en heildarfjöldinn er óljós. Að minnsta kosti sex manns voru fluttir á spítala en ekki hefur komið fram hvort að einhverjir þeirra séu meðal látinna. 

Fjölskyldur nemenda skólans söfnuðust saman fyrir utan spítalann til að bíða fregna hvort að fjölskyldumeðlimir þeirra séu meðal særðra eða látinna.

„Fyrst að við höfum ekki neinar upplýsingar um fjölda særðra á spítala, þá er hætta að fjöldinn hætti ekki í ellefu,“ sagði Fredrik Svedemyr, upplýsingafulltrúi lögreglu, í samtali við SVT.

Í Campus Risbergska skólanum fer fram fullorðinsfræðsla en verður hann lokaður út vikuna.

Ulf Kristersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, sagði skotárásina vera þá verstu í sögu Svíþjóðar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×