Körfubolti

„Ég trúi því ekki að þetta sé að fara að gerast“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dimitrios Agravanis treður boltanum með tilþrifum í körfuna í leik með Grikkjum á EuroBasket 2022.
Dimitrios Agravanis treður boltanum með tilþrifum í körfuna í leik með Grikkjum á EuroBasket 2022. Getty/Matteo Ciambelli

Grískir bræður munu spila saman í Tindastólsbúningnum í Bónus deild karla í körfubolta í vetur og það var ekki að sjá annað á frammistöðu Giannis Agravanis í síðasta leik að hann væri kátur með að vera að fá stóra bróðir í liðið.

Giannis Agravanis hefur verið með Stólunum í allan vetur og  hann átti einn sinn besta leik í síðasta leik með þegar skoraði 27 stig og stal 5 boltum í sigurleik á móti Hetti. Giannis er með 15,5 stig að meðaltali í leik.

Giannis er litli bróðir Dimitrios Agravanis sem er enn stærra nafn í boltanum. Dimitrios hefur nú samið um það að koma norður og klára tímabilið með Tindastól. Hann mun því spila við hlið bróður síns í Bónus deildinni.

Bónus Körfuboltakvöld ræddi komu Dimitrios til Stólanna.

Í úrvalsliði í Grikklandi 2022

„Þetta þýðir bara það að ógnarsterkt Tindastólslið er að fá ógnarsterkan leikmann. Prófíl sem á væntanlega eftir að styrkja liðið,“ sagði Sævar Sævarsson, sérfræðingur Körfuboltakvölds.

„Gæinn var í fimm manna úrvalsliðið í Grikklandi 2022. Það er ekki lengra síðan. Þetta er ekki einhver uppgjafar körfuboltaleikmaður. Þetta er risastórt og ég trúi því ekki að þetta sé að fara að gerast,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson, sérfræðingur Körfuboltakvölds.

„Þetta er það stórt. Ég skil þetta með þessa gæja sem eru að koma en hafa spilað í NBA. Ég skil þetta ekki með þennan. Einhver var að segja að honum langaði svo gríðarlega mikið að spila með bróður sínum,“ sagði Jón Halldór og glotti.

Það fallega við þessa sádi-arabísku deild okkar

„Ég ætla ekki að segja að þetta sé það eina fallega við þessa sádi-arabísku deild okkar sem við erum búnir að búa til hér á Íslandi. Það er samt eitthvað fallegt við það að litla bæjarfélagið Sauðárkrókur sé að fá til sín gríska goðsögn og hann sé að fara að spila í íslensku deildinni,“ sagði Sævar.

Það má horfa á alla umræðuna hér fyrir neðan.

Klippa: Ræddu komu grískar goðsagnar á Krókinn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×