„Ég var náttúrulega bara að drulla yfir nokkrar stelpur. Tala um hvað þetta væri karakterslaust og bara lítið að gerast þar. Við töpuðum þessu bara á karakter sko,“ sagði Brynjar Karl við Ágúst Orra Arnarson eftir tap Aþenu á þriðjudag.
Í viðtalinu heldur Brynjar Karl áfram að láta lið sitt heyra það. Á endanum baðst hann afsökunar á að blóta oft í viðtalinu, hann væri bara svo vanur því að nota slíkt orðalag í leikjum.
Bjarney, sem er framkvæmdastjóri Ungmennasambands Borgarfjarðar, ritaði í dag, miðvikudag, langa færslu á Facebook-síðu sinni þar sem vitnar í viðtalið við Brynjar Karl og birtir myndband af athæfi hans í leik fyrir ekki svo löngu.
„Ég hef ekki nennt að tjá mig um þennan mann eftir harða og nánast hatramma rimmu hérna um árið þar sem fólk varði hann út í rauðan dauðann þrátt fyrir að þá þegar voru börn sem höfðu farið mjög illa út úr því að hafa haft hann sem þjálfara,“ segir Bjarney Lára og heldur áfram.
„Síðustu vikur hef ég fylgst með honum spírallast í klikkuninni og í gær birtist frétt með fyrirsögninni “Fokking aumingjar” þar sem hann er að vísa í leikmennina sína.“
„Einnig viðurkenndi hann í hlaðvarpi fyrir ekki svo löngu síðan að hann skipti stundum í lið á æfingum “ljótar á móti sætum”. Ég get rétt ímyndað mér að vera 18-19 ára stelpa og vera sett í ljóta liðið.“
Um myndbandið sem Bjarney birtir með færslunni segir:
„… hann er ekki bara öskrandi og ógnandi gagnvart mikið yngri leikmanni heldur slær/ýtir í hana að auki í bræðiskasti (það sem er kannski sjúkast í þessu er að Aþenu gekk vel á þessum tímapunkti). Þetta gerir hann fyrir framan myndavélar, hvað leyfir hann sér á bakvið luktar dyr?“
„Veit það getur verið erfitt að losa sig úr ofbeldissambandi“
Bjarney segist eiga erfitt með að trúa því að fólk sé enn tilbúið að verja Brynjar Karl og þá skilur hún hvorki upp né niður að leikmenn nenni enn að spila fyrir hann.
„En ég veit líka að það getur verið erfitt að losa sig úr ofbeldissambandi þannig að ég vona að þessir einstaklingar séu með heilsteypt fólk í kringum sig sem getur hjálpað þeim að stíga út úr þessum óheilbrigðu aðstæðum.“
„Ef sambærilegt atvik myndi gerast i Kringlunni eða annars staðar á förnum vegi þá yrði hringt á lögregluna og viðkomandi að öllum líkindum kærður.“
Að endingu segist Bjarney ekki getað þagað lengur þar sem „þetta er ekkert annað en ofbeldi og ofbeldi á aldrei að líðast.“
Fréttin hefur verið uppfærð.