Fyrsti leikmaðurinn til að spila á Íslandi eftir að hafa spilað í NBA var auðvitað hinn eini og sanni Pétur Karl Guðmundsson. Pétur náði því meira að segja tvisvar sinnum.
Pétur lék fyrst í NBA með Portland Trail Blazers tímabilið 1982-82 og var þá með 3,2 stig og 2,7 fráköst að meðaltali á 12,4 mínútum í leik.
Hann lék næstu tvö tímabil á eftir með ÍR-ingum, 1982-83 var hann með 28,0 stig í leik og 1983-84 var hann með 26,6 stig í leik.
Petur komst aftur í NBA-deildina og spilaði þá fyrir Los Angels Lakers á 1985-86 tímabilinu. Pétur var þá með 7,3 stig og 4,8 fráköst á 16,0 mínútum í leik sem varamaður Kareem Abdul-Jabbar.
Pétri var síðan skipt til San Antonio Spurs þar sem hann var í tvö tímabil. Eftir tíma sinn hjá Spurs þá kom Pétur aftur heim til Íslands.
Hann spilaði með Tindastól í tvö tímabil og svo með Breiðabliki í eitt. 1990-91 var með hann með 19,5 stig og 12,7 fráköst að meðaltali með Stólunum og árið eftir var hann með 20,0 stig og 13,7 fráköst í leik. Hann skoraði síðan 20,3 stig og tók 14,5 fráköst í leik með Blikum tímabilið 1992-93.
En hver var fyrsti Bandaríkjamaðurinn til að spila í NBA og koma síðan í íslensku deildinni.
Það var vitað að Stew Johnson spilaði níu tímabil í ABA-deildinni áður en hann kom til KR þar sem hann lék í tvö tímabil og var með 32,8 stig fyrra árið en 38,2 stig í leik seinna árið.
Skagamenn voru hins vegar fyrstir til að tefla fram bandarískum NBA leikmanni en það gerðu þeir í átta leikjum á 1998-99 tímabilinu.
Sá sem um ræðir heitir Marvin Kurk Lee í skrám hér heima en gekk oftast bara undir nafninu Kurk Lee. Þar á meðal þegar hann lék 48 leiki með New Jersey Nets á 1990-91 tímabilinu. Meðal liðsfélaga hans þá voru menn eins og Derrick Coleman, Mookie Blaylock og Drazen Petrovic.
Átta árum síðar var hann kominn til Íslands eftir að hafa spilað árin á undan í Finnlandi.
Lee var reyndar bara með 1,4 stig í leik með Nets en í Skagabúningnum bauð hann upp á 32,4 stig, 12,1 frákast og 5,8 stoðsendingar að meðaltali í þeim átta leikjum sem hann spilaði með ÍA frá janúar til mars 1999.
Marvin Kurk Lee skoraði 35 stig eða meira í fimm leikjum þar af mest 39 stig á móti bæði Þór Akureyri og KFÍ. Hann náði einni þrennu þegar hann bauð upp á 31 stig, 11 fráköst og 11 stoðsendingar í sigri á Snæfelli.