Trump og forstjórar OpenAI, Softbank og Oracle komu fram saman á blaðamannafundi í Hvíta húsinu.
„Stargate er nýtt bandarískt fyrirtæki sem mun fjárfesta að minnsta kosti 500 milljörðum bandaríkjadollara í innviðauppbyggingu fyrir gervigreind hér í Bandaríkjunum ... og mun það búa til að minnsta kosti 100 þúsund störf í Bandaríkjunum í náinni framtíð,“ sagði Trump.
Fjárfestingin sé traustyfirlýsing viðskiptalífsins gagnvart nýjum forseta Bandaríkjanna og til marks um þau gífurlegu tækifæri framundan í Bandaríkjunum.
„Við viljum tryggja framtíð tækniframfara. Það sem við viljum gera er að halda tækninni í Bandaríkjunum. Kína er samkeppnisaðili, og aðrir eru samkeppnisaðilar líka. Ég mun hjálpa þeim verulega við uppbygginguna með neyðarúrræðum,“ sagði Trump.
„Það er neyðarástand, við verðum að byggja þetta , við þurfum að framleiða mikið rafmagn, og við munum sjá til þess að það verði gert.“
Þá sagði Trump að verið væri að skoða mögulegar staðsetningar fyrir risavöxnu gagnaverin, og þau verði öll í Bandaríkjunum.