Skyggnst var inn í hótelið og íbúðarhúsið á Vatnsstíg í Íslandi í dag á Stöð 2 nú í vikunni. Innlitið má horfa á í heild í spilaranum hér fyrir neðan. Til viðtals voru Orri Árnason arkitekt og Magni Kristjánsson verkstjóri á stað, sem lýstu því báðir að þeir væru ósköp fegnir að nú sjái fyrir endann á framkvæmdunum.
Verkefnið spannar nú heil sjö ár og hefur ekki alltaf verið dans á rósum, eins og fjallað var um í kvöldfréttum Stöðvar 2 sumarið 2022.
„Jú, mjög fegnir og þetta hefur verið mjög erfitt verkefni,“ segir Magni. „Mjög flókið og svo er maður náttúrulega að reyna að halda öllum góðum. En það var ekki hægt, þegar maður var að fleyga var einhver óánægður og þegar ekki var verið að fleyga var annar íbúi óánægður. Mjög erfitt að halda öllum góðum en ég held að það sé sátt núna.“
„Þetta er búið að vera þungur baggi, mjög erfitt. Eitthvað erfiðasta verkefnið sem við höfum tekið okkur á hendur,“ segir Orri. „Langerfiðasta,“ skýtur Magni inn í.
„Tengja saman ólíkar byggingar, á ólíkum hæðum og það þarf að tengja þetta allt þannig að þetta gangi upp. Þetta er búið að vera mjög snúið,“ segir Orri og bætir því við að byggingarstjóri verksins, sem hafði einnig yfirumsjón með byggingu Hörpu, hafi haft á orði að Vatnsstígsframkvæmdin væri mun flóknara verkefni.
Heimsóknina á Vatnsstíg í Íslandi í dag má horfa á í spilaranum hér fyrir ofan. Þáttinn má einnig nálgast á Stöð 2+, streymisveitu Stöðvar 2.